13. nóvember 2003
Í umsögn matsnefndar segir meðal annars:
Stjórnun og stefnumörkun einkennist annars vegar af formföstum aðferðum sem byggja á traustum faglegum grunni og hins vegar á því sem virðist vera traust og virðing milli starfsmanna og stjórnenda. Siðareglur hafa verið skilgreindar og virðast starfsmenn meðvitaðir um þær og tilgang þeirra.Aðferðir við stjórnun og stefnumörkun eru ekki teknar upp í blindni eða af tískustraumum heldur valdar og látnar taka mið af félaginu og stefnu þess. Aðferðirnar eru þróaðar og endurbættar eftir því sem reynsla gefur tilefni til og til að taka mið af aðstæðum hverju sinni. Unnið hefur verið markvisst eftir aðferðum gæðastjórnunar um margra ára skeið og hefur verið leitað til færustu sérfræðinga til aðstoðar við þjálfun starfsmanna.
Metnaður er lagður í rækt við starfsmenn og birtist það á mörgum sviðum svo sem varðandi aðbúnað, stuðning til heilsusamlegra hátta, menntun, aðgengi að stjórnendum og tjáskiptum almennt og er þá fátt eitt talið.
Það er mat dómnefndar að félagið hafi sýnt fram á einstaklegan góðan árangur og geti verið fyrirmynd annarra. Félagið hefur sterka stjórnendur og hæft og metnaðarfullt starfsfólk sem sýndi dómnefndinni góðan árangur starfa sinna.