Sjóvá hefur gerst aðili að UN Global Compact sem eru samtök Sameinuðu þjóðanna um ábyrga viðskiptahætti og stærsta sjálfbærniframtak heims. Með aðild skuldbindur Sjóvá sig til að vinna að tíu meginmarkmiðum Global Compact um ábyrga viðskiptahætti á sviði mannréttinda, vinnumarkaðsmála, umhverfismála og varna gegn spillingu. Sjóvá skal einnig árlega skila upplýsingum um árangur sinn í sjálfbærni í gegnum opinberan gagnagrunn UN Global Compact og stuðla þannig að auknu gagnsæi og samanburðarhæfni í upplýsingagjöf.
„Við bindum miklar vonir við að aðild okkar að Global Compact geti stutt við sjálfbærnivegferð Sjóvá. Víðtækt tengslanet Global Compact og fjölbreytt fræðsla mun gera okkur kleift að gera enn betur í að auka sjálfbærni í starfseminni og þekkingu okkar starfsfólks á þessum sviðum“ segir Hermann Björnsson forstjóri Sjóvá.
„Það er okkur sönn ánægja að bjóða Sjóvá velkomið í hóp öflugra fyrirtækja í UN Global Compact. Það hefur verið afar áhugavert að fylgjast með sjálfbærnivegferð Sjóvá á undanförnum árum og skynja metnað fyrirtækisins til að hraða framförum og árangri með ábyrgð að leiðarljósi. Við hlökkum til samstarfsins og það er okkar hlutverk að vera sá stuðningur sem fyrirtækið þarf til að ná enn lengra. Með samvinnu og drifkrafti getum við hraðað árangri íslensks atvinnulífs í sjálfbærni og til aukinnar verðmætasköpunar“ segir Auður Hrefna Guðmundsdóttir svæðisstjóri UN Global Compact á Íslandi.
Hlutverk Global Compact er að veita fyrirtækjum aðgang að þjálfun og fræðslu, tala fyrir aðgerðum og miðla upplýsingum um það sem þátttakendur eru að gera. Fyrsta verkefni Sjóvá eftir aðild verður að taka þátt í hraðli um setningu losunarmarkmiða á vísindalegum grunni skv. aðferðafræði Science Based Targets initiative á vegum Global Compact á Norðurlöndum.
Á heimsvísu eru um 21 þúsund fyrirtæki af öllum stærðum aðilar að UN Global Compact og fer starfsemi samtakanna fram í 162 löndum.