Mikið af áhugaverðum upplýsingum fengust úr sjónmælingunni. Hjá Allrahanda var sjón 52 bílstjóra mæld og er meðalaldur þeirra 49,6 ár. Í ljós koma að einn bílstjóri var með mjög takmarkaða sjón við akstur án þess að gera sér grein fyrir því, fyrr en hann fékk ný gleraugu. Nokkrir bílstjóranna verða alltaf að nota gleraugu við akstur og enn aðrir voru með náttblindu.
Um tilraunaverkefni var að ræða en þessar niðurstöður sýna að það er tilefni til þess að vekja frekari athygli á mikilvægi þess að atvinnubílstjórar og ökumenn almennt hugi að því hvort að þörf sé á að láta athuga sjón sína. Samspil sjónar og umferðaröryggis er ótvírætt og Ágúst Mogensen hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa tekur undir að niðurstöðurnar séu áhugaverðar og áhersla verði lögð á að skoða þetta frekar í framtíðinni. Sjóvá mun á næstunni vinna frekar að þessu verkefni með ýmsum hætti enda er verkefnið mikilvægt í forvarnalegu tilliti.