Í vetur verður Hafsteinn Esekíel Hafsteinsson sölu- og þjónustustjóri reglulega gestur í þættinum Heimilið á Hringbraut. Hafsteinn mun ræða um tryggingar fyrir einstaklinga og hvað er nauðsynlegt að hafa í huga í þeim efnum.
Í fyrsta þætti vetrarins var rætt sérstaklega um líf- og sjúkdómatryggingar en Hafsteinn segir Íslendinga upp til hópa ekki huga nógu vel að þeim tryggingum. Mikilvægt sé að fólk fái ráðgjöf um það hvaða tryggingar henti þeirra aðstæðum hverju sinni. „Við leggjum mikla áherslu á að vera í góðum samskiptum við viðskiptavininn þannig að ef aðstæður breytast; þú stækkar eða minnkar við þig, eignast maka eða börn o.s.frv. þá viljum við fara yfir tryggingarnar,“ segir Hafsteinn. Þannig sé hægt að taka mið af skuldbindingum fólks hverju sinni og tryggja að viðskiptavinurinn sé hvorki með of lágar né of háar tryggingar, miðað við aðstæður.
Hafsteinn segir rétt fólks á bótagreiðslum vegna alvarlegra veikinda einnig vera mjög mismunandi og ákveðnir hópar eins og námsmenn eigi mjög takmarkaðan rétt. Launþegar þurfi þó líka að huga vel að þessum málum þar sem bótagreiðslur nái aldrei að bæta að fullu tekjumissinn sem fólk getur orðið fyrir. Best sé að tryggja sig þegar maður er ungur og hraustur; byrja á að tryggja sig fyrir lægri upphæð og bæta síðan við hana eftir því sem skuldbindingarnar aukast.
Hafsteinn segir að því miður átti margir sig ekki á mikilvægi þess að vera líf- og sjúkdómatryggður og leggi jafnvel frekar áherslu á að kaskótryggja bílinn sinn og innbúið. „Okkar skilaboð eru hins vegar: Settu sjálfan þig í fyrsta sæti en veraldlegu hlutina í annað sæti.“
Heimilið er á dagskrá Hringbrautar kl.20 á þriðjudögum og verður Hafsteinn Esekíel gestur þáttarins einu sinni í mánuði.