Á hverju ári greiðir Sjóvá þúsundum viðskiptavina sinna bætur sem tengjast tjónum á ýmis konar raftækjum. Í flestum tilfellum er um að ræða tæki sem eru ónothæf og því eru mikil tækifæri fólgin í umhverfisvænni endurnýtingu og endurvinnslu á þessum búnaði.
Græn framtíð er félag sem sérhæfir sig í endurnýtingu og endurvinnslu á hvers kyns raftækjum frá fyrirtækjum og einstaklingum, með það að markmiði að draga úr því magni rafeindabúnaðar sem endar á sorphaugum, auk þess að stuðla að aukinni vitund um endurnýtingu og endurvinnslu á þeim búnaði sem um ræðir hverju sinni.
Hjá Sjóvá eru rekin mörg umbótaverkefni sem tengjast því að gera fyrirtækið umhverfisvænna. Sem dæmi má nefna markmið um minni notkun pappírs og endurvinnslu á tjónabílum. Í tengslum við ofangreint verkefni mun Græn framtíð hafa milligöngu um að Sjóvá fái græna vottun frá viðurkenndum aðila og vottun um að félagið uppfylli skilyrði WEEE reglugerðar Evrópusambandsins.
„Við sjáum mikil tækifæri í því fyrir Sjóvá, viðskiptavini okkar og samfélagið að huga að umhverfisvænum verkefnum“ segir Lárus Ásgeirsson forstjóri Sjóvár. „ Með skynsamlegri endurnýtingu og endurvinnslu tjónsmuna og ýmis konar hagræðingu í rekstri fara hagsmunir fyrirtækja, viðskiptavina og umhverfis vissulega saman og hjá Sjóvá setjum við okkur metnaðarfull markmið um umhverfisvæna starfshætti“.