Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur ráðist í endurnýjun allra 13 björgunarskipa sinna. Sjóvá styrkti félagið um 142,5 milljónir til kaupa á fyrstu þremur skipunum sem hafa nú öll verið tekin í notkun.
Fyrsta nýja björgunarskipið, Þór, kom til Vestmannaeyja í október 2022. Annað björgunarskipið, Sigurvin, var afhent á Siglufirði í mars á þessu ári og það þriðja, Jóhannes Briem, var afhent sl. laugardag við hátíðlega athöfn í Reykjavík.
Nýju björgunarskipin eru með ganghraða allt að 30 sjómílur og eru knúin áfram af tveimur öflugum Scania díselvélum og snigil drifum. Þau eru hlaðin nútíma tæknibúnaði, hitamyndavél og botnsjá ásamt því að aðbúnaður áhafnar er mun betri en í eldri skipum félagsins.
Það er okkur mikil ánægja að styðja við þetta brýna verkefni sem tryggir stóraukið öryggi, bæði á sjó og landi.