Síðustu daga hefur starfsfólk okkar staðið í ströngu m.a. vegna fjölda tjóna sem rekja má til úrhellis og hláku um síðustu helgi. Að því tilefni langar okkur að reyna að skýra hvernig tryggingar okkar virka þegar um er að ræða slíkt ástand.
Heimili
Skýfalls- og asahlákutrygging í Fasteignatryggingu bætir tjón á húseign ef jarðvegsvatn flæðir inn í hana vegna úrhellisrigningar (skýfalls) eða snjóbráðar (asahláku).
Með úrhellisrigningu og snjóbráð er átt við að vatnsmagnið verði skyndilega svo mikið að jarðvegsniðurföll leiði það ekki frá.
Innbústrygging í Fjölskylduvernd bætir tjón á innbúi vegna skýfalls- og asahláku.
Tryggingarnar taka þó ekki til tjóns sem verður þegar vatn flæðir inn um þök, glugga, meðfram svölum og þakrennum þar sem viðhalds er þörf. Skýfalls- og asahlákutrygging bætir eðli málsins samkvæmt fyrst og fremst tjón sem verður í kjallara eða á jarðhæð fasteignar þar sem vatn flæðir inn.
Það er skilyrði bótaskyldu að hreinsað hafi verið frá niðurföllum svo að snjór, klaki og óhreinindi stífli þau ekki.
Sumarhús
Um daginn urðu nokkrir sumarbústaðir í Vaðnesi umflotnir vatni er mikil krapastífla myndaðist í Hvítá, með þeim afleiðingum að áin flæddi yfir bakka sína og breytti um farveg. Tjón vegna þessa er bætt af Viðlagatryggingu þar sem um náttúruhamfarir er að ræða.
Bifreiðar
Kaskótrygging bætir tjón sem verður á bifreið er henni er ekið óvænt í poll (á malbiki) en eigin áhættan er þá 50% af tjónskostnaði. Kaskótryggingin kann einnig að bæta vatnstjón á kyrrstæðri bifreið t.d. í bílakjallara þar sem flætt hefur inn sökum óveðurs.
Myndir
Smelltu á mynd til að stækka