Fyrirtækjaráðgjöf Sjóvá bauð til morgunfundar um heita vinnu á Hótel Reykjavík Natura þann 20. nóvember sl. undir yfirskriftinni: Brunar í Evrópu og á Íslandi, hvað er til ráða? Undirtektir voru góðar, salurinn fullsetinn og voru þátttakendur um hundrað talsins.
Síðustu misseri hafa komið upp alvarlegir brunar bæði hér á landi og erlendis á bygginga- og framkvæmdasvæðum. Því miður eru brunar tengdir logavinnu of algengir og því vert að spyrja hvort eitthvað megi betur fara í þeim efnum?
Við fengum til liðs við okkur sérfræðinga á sviði bruna- og tryggingamála sem voru með áhugaverð erindi um málefnið. Fundarstjóri var Hrefna Sigurjónsdóttir, verkefnastjóri forvarna hjá Sjóvá.
Aldís Rún Lárusdóttir, sviðsstjóri forvarnasviðs hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins var með erindið „Er logaleyfi hluti af lausninni?“ og ræddi þar m.a. um hvernig logaleyfi getur verið verkfæri húseigenda til að stuðla að öruggara vinnulagi við framkvæmdir. Húseigandi hafi í raun ýmis tromp á hendi til að stuðla að því að verktaki fylgi góðu verklagi. Töfin kosti sitt en tjónið meira. Hún fór einnig stuttlega yfir brunatölfræði og ræddi m.a. Kringlubrunann sem ýtti af stað mikilli umræðu í samfélaginu. Mikilvægt væri að nýta þá þekkingu og verkfæri sem eru til í stað þess að bíða eftir næsta stórbruna
Okkar menn Eyjólfur Ágúst Kristjánsson, viðskiptastjóri í Fyrirtækjaráðgjöf og Ólafur Þór Ólafsson, forstöðumaður Eignatjóna, voru með erindið „Veldur hver á heldur“ og hófu það á að nefna þá staðreynd að umfang brunatjóna árið 2023 var eitt það mesta frá aldamótum. Í júní 2024 varð hver stórbruninn á fætur öðrum, þ.á m. bruninn í Kringlunni sem kviknaði út frá vinnu við lagningu þakpappa. Þá fóru þeir yfir lagalega skyldu húseigenda til að tryggja allar húseignir og að einnig væri skylt að brunatryggja hús í smíðum. Ábyrgðin á því að brunatryggja fasteignir hvílir hjá eiganda sem þarf að uppfæra brunabótamat eftir því sem verki vindur fram. Einnig ítrekuðu þeir að hættulegasti tíminn í lífi fasteigna væri þegar þær væru á byggingarstigi eða við endurbætur og viðhald. Því væri mikilvægt að hafa þetta í lagi og huga að viðeigandi aðbúnaði, brunahönnun og frágangi og gera betur.
Lokaerindið var í höndum Piu Ljunggren, sem er sérfræðingur hjá Eldvarnaeftirlitinu í Svíþjóð, Brandskyddsföreningen, en hún heldur þar utan um skipulag og námskeið starfsmanna í heitri vinnu á landsvísu. Hún var með einstaklega áhugaverða yfirferð á „sænsku leiðinni“ í þessum efnum en Brandskyddsföreningen býður upp á þjálfun og vottun fyrir aðila sem fást við heita vinnu á fimm tungumálum víðs vegar um Svíþjóð og hefur þetta fyrirkomulag verið þar við lýði í yfir þrjá áratugi, eða allt frá árinu 1990. Á þeim tíma hefur brunum og tjónakostnaði vegna þeirra fækkað verulega frá árinu 1990, brunum um 80% og kostnaður hefur lækkað um 75%. Hún fór yfir bakgrunn og sögu framtaksins, sænska regluverkið fyrir heita vinnu, hvað telst til heitrar vinnu og þeirra reynslu af brunum og sýndi m.a. dæmi um ýmiss konar fræðsluefni. Ljóst er að Svíar búa að mikilli reynslu í þessum efnum og getum við nýtt þá þekkingu hér á landi.
Að erindum loknum skapaðist lífleg umræða og greinilegt að erindi Piu vakti sérstakan áhuga. Í framhaldi af málþinginu munum við leita leiða til að nýta þá þekkingu sem fram kom og efla vinnulag og forvarnir í heitri vinnu.