Kuldi í kortunum
Þrátt fyrir bjart og fallegt veður víða um land þessa dagana er kuldi í kortunum. Miklum kulda er spáð í vikunni og þá er mikilvægt að huga að lögnum og húsnæði sem er ekki í mikilli notkun.
Hér á eftir fara nokkrar mikilvægar ábendingar sem vert er að hafa í huga í kuldatíð:
- Kannið hvort hiti sé á öllum ofnum, sérstaklega í bílskúrum, geymslum og öðrum rýmum utan íbúða til að varna frostskemmdum.
- Kannið ástand orlofshúsa og íbúða sem staðið hafa auðar eftir frostakafla því oft byrjar að leka þegar hlýnar aftur.
- Mikilvægt er að lokað sé fyrir inntak neysluvatns og lagnir tæmdar í frístundahúsum en það getur komið í veg fyrir að lagnir springi í frosti.
- Hreinsið frá niðurföllum til að koma í veg fyrir að vatn flæði inn þegar hlánar.
- Hálkuverjið þar sem þörf krefur.