Miklum kulda er spáð um páskana og þá er mikilvægt að huga að húsnæði sem ekki er í mikilli notkun.
Rekstur er víða með óvanalegum hætti um þessar mundir og því viljum við fara yfir nokkra hluti sem gott er að hafa í huga þegar húsnæði er í lítilli notkun. Nauðsynlegt er fyrir alla húseigendur að fara reglulega yfir þessi atriði.
-
Brunavarnir. Eru reykskynjarar í lagi? Er búið að ganga vel frá eldfimum efnum og öðrum hlutum sem skapað geta eldhættu? Er búið að yfirfara öll slökkvitæki? Eru allir neyðarútgangar greiðfærir? Mikilvægt er að kynna sér vel eldvarnir í fyrirtækjum.
-
Rusl. Hvernig er umgengni í kringum húsið? Er dóti eða rusli staflað nálægt húsveggjum sem skapað geta eldhættu eða hættu á íkveikju?
-
Innbrotavarnir. Eru hurðir kyrfilega lokaðar og gluggar sömuleiðis? Er skipaður ábyrgðaraðili sem sér um að loka og læsa? Lítur ábyrgðaraðili eftir húsinu á meðan starfsemi liggur niðri?
-
Eftirlit. Er öryggiskerfi í húsnæðinu eða eitthvert virkt eftirlit? Er farið í reglubundnar heimsóknir í húsnæðið til að kanna aðstæður? Er búið að fara inn í öll herbergi og kanna aðstæður þar?
-
Leki. Ef húsnæði er yfirgefið er gott að skrúfa fyrir inntak á vatni til að koma í veg fyrir leka. Einnig getur reynst vel að vera með vatnsskynjara sem skynja og láta vita af vatnsleka. Ef húsnæði er ekki í mikilli notkun yfir vetrartímann þá skiptir máli að skoða aðstæður eftir mikla frostakafla. Þegar vatn nær að frjósa í lögnum verða svokallaðar frostsprungur á þeim vegna þenslu. Með góðu eftirliti má koma í veg fyrir mikið vatnstjón þótt lagnir hafi sprungið því vatnið fer ekki að flæða fyrr en frostakafla er lokið og hitastig fer aftur yfir frostmark. Hið sama á við ef rafmagn eða hitaveita hefur farið af, við slíkar aðstæður getur auðveldlega frosið í lögnum. Hér er farið yfir vatnsvarnir og fyrstu viðbrögð við vatnstjóni.
Á óvissutímum er mikilvægt að huga að öryggi og líðan starfsfólks. Því er gott að nýta tækifærið og fara vel yfir öryggismál og forvarnir í rekstri. Við vonum að þessar ábendingar komi að góðum notum fyrir þig og þinn rekstur.