Tölur sýna að fjöldi tilkynntra bruna vegna kerta eða kertaskreytinga frá árinu 2005 til nóvember 2011 hefur fækkað umtalsvert. Flestir kertabrunar verða í desember og því er ástæða til þess að minna enn og aftur á að fara varlega með lifandi ljós. Fræðsla um kerti og orsakir bruna vegna þeirra hefur skilað árangri ávallt þarf að vera á verði þegar lifandi ljós er notað.
Hvers vegna kviknar út frá kertum?
Helsta ástæða bruna af völdum kerta er vegna þess að það gleymist að slökkva á þeim eða að þau eru skilin eftir logandi í herbergi þar sem enginn er. Þetta á jafnt við á um heimili sem og fyrirtæki. Það ber því að ítreka það enn og aftur að slökkva á kertum þegar farið er út úr herbergi.
Flestir kertabrunar á aðfangadag, jóladag, gamlársdag og nýársdag
Frá árinu 2005 og fram til nóvember 2011 hefur Sjóvá fengið tæplega 400 tilkynningar um bruna sem rekja má til kerta. Þessi tala segir þó ekki alla söguna þar sem kertabrunar eru mun fleiri enda ótaldir eru brunar sem aldrei eru tilkynntir eða koma til afgreiðslu hjá öðrum vátryggingarfélögum. Í flestum tilfellum er um að ræða lítið fjárhagsleg tjón, brunnið borð, gluggakista eða gardína en höfum í huga að það þarf ótrúlega lítið til að minni háttar kertabruni verði að stórtjóni eða slysi. Lifandi ljós ber að umgangast með varúð.
Frekari upplýsingar veitir Fjóla Guðjónsdóttir í síma 844 2025. Einnig er hægt að senda tölvupóst fjola.gudjonsdottir@sjova.is.