Íslensku forvarnaverðlaunin voru veitt í fyrsta sinn í dag. Þetta er samstarfsverkefni Sjóvá, Landsbjargar, Landspítala, háskólasjúkrahúss og Lýðheilsustöðvar.Sjóvá átti frumkvæði að þessum verðlaunum og er fyrirtækið bakhjarl Íslensku forvarnaverðlaunanna. Fyrstur til að hljóta Íslensku forvarnaverðlaunin er Þorsteinn Pétursson, forvarna- og fræðslufulltrúi lögreglunnar á Akureyri. Steini Pje, eins og hann er jafnan kallaður, er mjög verðugur þess að hljóta þennan heiður en hann hefur um árabil verið gríðarlega duglegur og öflugur í alhliða forvarnastarfi á Akureyri. Hann fer í alla leik- og grunnskóla bæjarins ásamt því að heimsækja Menntaskólann á Akureyri og Verkamenntaskólann á Akureyri og ræðir það sem við á, á hverju stigi, allt frá umferðarmálum til fíkniefna og allt þar á milli. Í byrjun apríl sl. var auglýst eftir tilnefningum til þessara verðlauna og bárust alls 41 tilnefning frá 44 aðilum. Ljóst er að margir eru að vinna gott starf á þessu sviði og því var ekki auðvelt að finna handhafa verðlaunanna. Í kjölfarið var settur á laggirnar vinnuhópur sem í áttu sæti Kristín Sigurðardóttir læknir, Fræðslustjóri Slysa- og bráðadeild Landspítala – háskólasjúkrahúsi fyrir hönd Landspítala háskólasjúkrahúss, formaður nefndarinnar, Ólafur B. Thors framkvæmdarstjóri, Herdís L Storgaard, verkefnisstjóri Árvekni fyrir hönd Lýðheilsustöðvar, Jón Gunnarsson, framkvæmdarstjóri Landsbjargar fyrir hönd Landsbjargar, og Þór Sigfússon, forstjóri og ábyrgðaraðili. Starfsmaður nefndarinnar var Einar Guðmundsson. Hlutverk vinnuhópsins var að finna aðila sem skarað hafa framúr í forvörnum og ákvað vinnuhópurinn að skipta tilnefningum niður í þrjá hópa; einstaklinga, félagasamtök og fyrirtæki. Eins og áður segir var auglýst eftir tilnefningum, en auk þess aflaði vinnuhópurinn sér gagna um ýmsa aðila sem komið gætu til greina sem handhafar verðlaunanna. Vinnuhópurinn valdi þrjá til fimm aðila úr hverjum hópi í undanúrslit og að nákvæmri skoðun lokinni var einn aðili tilnefndur í hverjum flokki og fengu þeir allir viðurkenningu fyrir frábært starf að forvörnum. Handhafi “Íslensku forvarnarverðlaunanna” var svo valinn úr hópi þessari þriggja aðila, sem eru eftirfarandi: Þorsteinn Pétursson, forvarna- og fræðslufulltrúi lögreglunnar á Akureyri, í flokki einstaklinga, Kiwanis umdæmið Ísland Færeyjar í samstarfi við Eimskip, í flokki félagasamtaka, og Sæbjörgin – slysavarnaskóli sjómanna, í flokki fyrirtækja. Í umsögn um Þorstein sem send var til nefndarinnar sagði m.a.: “Það sem hann segir kemur frá hjartanu og nær til þeirra sem hann er að ræða við. Starf hans hafi þróast úr hlutastarfi í fullt starf á þessum vettvangi og á hans vinnuveitandi því miklar þakkir skildar fyrir þann skilning og stuðning sem þeir sýna mikilvægi forvarnarstarfs. Þrátt fyrir skilning yfirmanna hefur Þorsteinn sinnt sínu starfi langt umfram skyldur og er leitað til hans með ýmis vandamál sem koma upp og leitast hann við að aðstoða og leysa úr og ber í því sambandi sérstaklega að benda á þau börn sem lent hafa utangarðs.”