Í tilkynningu sem send var til Kauphallar Íslands þann 19. september kemur fram að Íslandsbanki hafi eignast 44,82% hlut í Sjóvá og gert samning um kaup á 11,4% hlut til viðbótar. Bankinn mun gera öðrum hluthöfum félagsins yfirtökutilboð innan fjögurra vikna í samræmi við ákvæði VI. sbr. VII. kafla laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003.Markmið Íslandsbanka er að eignast Sjóvá að fullu og gera félagið að dótturfélagi og sjöunda afkomusviði sínu. Ætlun bankans með kaupunum er að veita viðskiptavinum sínum heildstæða fjármálaþjónustu, þ.m.t. á sviði trygginga. Markmið kaupanna er að auka hag viðskiptavina og hluthafa með aukinni þjónustu, bættri áhættudreifingu tekna og samlegðaráhrifum bæði í tekjum og kostnaði. Bankinn hefur óskað eftir heimild Fjármálaeftirlitsins til að eiga virkan eignarhlut í félaginu skv. lögum nr. 60/1994.