Sjóvá-Almennar tryggingar hafa ákveðið að lækka iðgjöld ábyrgðartrygginga ökutækja um allt að 10% frá og með 1.janúar 2004. Með ákvörðun sinni vilja Sjóvá-Almennar láta viðskiptavini sína njóta þess bata sem orðið hefur í afkomu lögbundinna ökutækjatrygginga undanfarið. Ástæða batnandi afkomu í þessum hluta starfseminnar er einkum fækkun tjóna, sem rekja má til ytri skilyrða, m.a. betra veðurfars.
Breytingar á iðgjöldum eru mismunandi eftir flokkum en sem dæmi má nefna lækkar iðgjald fyrir meðalstóran fjölskyldubíl, um u.þ.b. 6.500 krónur á ári.Sjóvá-Almennar munu eftir sem áður endurgreiða tjónlausum viðskiptavinum í STOFNI allt að 10% iðgjalda í febrúar á næsta ári, líkt og gert hefur verið undanfarin ár, og mun lækkunin nú ekki hafa áhrif þar á.
Sjóvá-Almennar binda vonir við að afkomuþróun í ökutækjatryggingum verði áfram svipuð og verið hefur, en iðgjöld ökutækja munu þó endurspegla aðstæður í rekstri greinarinnar hverju sinni. Stefna félagsins er og hefur ávallt verið sú að viðskiptavinir skuli njóta þess ef vel árar í rekstrinum, enda telja stjórnendur félagsins að þannig sé hagsmunum þess best borgið.
Lækkunin kemur á endurnýjanir 1. janúar 2004 og á nýtryggingar frá og með 2 desember. Vakin er athygli á því að lækkunin tekur 12 mánuði að fara yfir allar vátryggingarnar. Þeir flokkar sem lækka eru m.a. einkabílar, leigubílar, vörubifreiðar (6A og 6B) og sendibifreiðar á stöð. Einnig verða iðgjöld húsbíla lækkuð um c.a. 50%.