Framkvæmdum flýtt um 10 - 15 ár
Sjóvá hefur lagt til við heilbrigðisyfirvöld að félagið reisi nýja álmu við Grensásdeild Landspítala - háskólasjúkrahúss.
Með þessu er gert ráð fyrir að viðbyggingin verði tekin í notkun eftir tvö ár, en annars hefur ekki verið gert ráð fyrir að vandi deildarinnar yrði leystur fyrr en eftir 10 til 15 ár.Tillagan bíður nú afgreiðslu Heilbrigðisráðuneytisins, en það voru Hollvinir Grensásdeildar sem hvöttu félagið til að láta til sín taka á þessu sviði.
Sjóvá myndi ekki einungis vera í forystu um fjármögnun framkvæmdarinnar, sem talið er kosti um 500 milljónir króna, heldur gæfi einnig tugi milljóna til verkefnisins.
Samfélagsleg ábyrgð
Gunnar Finnsson, formaður Hollvina Grensásdeildarinnar segir m.a. „Það sem er nýtt við þessa leið er að einkafyrirtæki, í þessu tilfelli Sjóvá, er ekki einungis tilbúið að fjármagna og leigja út húsnæðið heldur leggur það einnig sjálft til gjöf til verksins sem kæmi til frádráttar leigunni. Tryggingafélögin hafa að sjálfsögðu mikla hagsmuni af því að endurhæfa tjónþola sem fyrst en mér finnst fyrirtækið sýna ákveðna samfélagslega ábyrgð með þessu framtaki,“ segir Gunnar.
Viðbótaröryggisnet
Þór Sigfússon, forstjóri Sjóvár hefur nýlega flutt erindi, þar sem hann ræddi um hvernig tryggingafélög gætu komið að þjónustu við aldraða og þá sem þurfa endurhæfingu. Tryggingafélagið myndi þannig bjóða fram þjónustu, sem viðbótaröryggisnet, við þá þjónustu sem ríki og sveitarfélög bjóða. Með því geti fólk búið í haginn fyrir efri árin og átt greiðan aðgang að endurhæfingu og hjúkrunarrými þegar á þarf að halda, í stað þess að bíða í 1-2 ár eins og nú er raunin. "Því fyrr sem hafist er handa við að hjálpa einstaklingum að komast til fyrri færni eftir veikindi og slys, því meiri árangur næst. Dragist þetta um 6-12 mánuði getur það þýtt allt að 70% minni möguleika á að bæta færni til fyrra horfs" sagði Þór m.a. í erindinu.
Erindið var haldið á ráðstefnu um ný viðhorf og róttæka stefnumótun í málefnum aldraðra sem haldin var í Háskólanum í Reykjavík 22. & 23. feb. 2007, og má segja að þar hafi verið settar fram raunhæfar tillögur sem geta stuðlað að jákvæðum og hraðari breytingum til batnaðar í heilbrigðisþjónustu á Íslandi.
- Framtíðarsýn tryggingafélags um þjónustu við aldraða.
- Frétt Morgunblaðsins um stækkun Grensásdeildar (31. maí 2007)