Fyrsta enska skiltið á þjóðvegum landsins var formlega kynnt fyrir fjölmiðlum á fundi í Sjóvá Forvarnahúsinu, 31. júlí 2007. Þetta er samstarfsverkefni Sjóvár og Vegagerðarinnar, þar sem Sjóvá kostar gerð 25 skilta og Vegagerðin sér um uppsetningu þeirra. Fyrsta skiltið hefur þegar verið sett upp, við Sveifluháls á Krísuvíkurvegi, þar sem malarvegur tekur við af malbikuðum vegi. Á skiltinu stendur Gravel road ahead. Ástæðan fyrir skiltinu er sú að mörg tjón verða á þeim stöðum þar sem malarvegur tekur við af malbiki og er markmiðið að fækka þeim tjónum.
Sjóvá býr yfir gögnum sem nýtast munu í frekara samstarfi við Vegagerðina, til að gera vegina og umhverfi þeirra öruggara og koma í veg fyrir tjón. Samgönguráðherra lýsti því yfir á fundinum að hann óskaði eftir frekara samstarfi Sjóvár við Vegagerðina og er það mikilvægur áfangi í forvarnastarfi félagsins.
Einnig var afhentur einblöðungur til bílaleiga, sem á að kynna erlendum ökumönnum hámarkshraða á íslenskum vegum.
Reiknivél sem reiknar sektir vegna hrað- og ölvunaraksturs var formlega opnuð á vef Umferðarstofu.