Afkoma í takti við áætlanir
-
Viðburðaríkt ár að baki þar sem nýir eigendur komu að félaginu.
- Hagnaður ársins nam 642 m.kr.
- Eigið fé 12.934 millj.kr í árslok.
- Sérstök niðurfærsla á óefnislegum eignum að upphæð 1.624 m.kr.
- Gjaldþolshlutfall móðurfélagsins styrktist um 54% á árinu.
- Stefnt að skráningu í Kauphöll
Sjóvá-Almennar tryggingar hf. hélt aðalfund sinn þriðjudaginn 27. mars. Á fundinum var ársreikningur fyrir árið 2011 samþykktur. Rekstur ársins var í takti við áætlanir hjá félaginu. Í skýrslu stjórnar kom meðal annars fram að árið 2011 hafi verið tímamótaár hjá Sjóvá. Eignarhaldsfélag Seðlabanka Íslands seldi stærstan hlut ríkisins í félaginu og nýir langtímakjölfestufjárfestar komu að rekstrinum. Ráðist hefur verið í skipulagsbreytingar hjá félaginu og er stefnt að skráningu í Kauphöll Íslands.
Hermann Björnsson forstjóri:
„Afkoma Sjóvár á árinu 2011 var í takti við áætlanir. Hagnaður ársins nam 642 m.kr. og var eigið fé samstæðunnar í árslok 2011 12.934 millj. kr. og eiginfjárhlutfallið 34,5%. Gjaldþolshlutfall móðurfélagsins styrktist mikið á árinu, var 3,57, aðlagað gjaldþolshlutfall var 2,73 og hækkaði úr 1,83 frá árslokum 2010. Í lok síðasta árs námu heildareignir samstæðunnar 37.540 millj. króna. Sjóvá er því vel fjármagnað vátryggingafélag.
Árið 2011 var viðburðaríkt í rekstri Sjóvár þar sem eignarhald félagsins skýrðist með kaupum hóps sterkra fjárfesta á kjölfestuhlut í félaginu. Í framhaldinu hófst endurskipulagning rekstrarins og var lagður grunnur að nýjum áherslum. Það eru mörg járn í eldinum og spennandi tímar framundan. Það er að mínu mati mjög ögrandi verkefni að koma að endurreisn félags á borð við Sjóvá, sem löngum hefur notið velvildar og trausts. Hjá félaginu starfar bæði samheldinn og góður hópur fólks sem vinnur af einlægni að því að auka gæði þjónustunnar enn frekar við viðskiptavini félagsins“, segir Hermann.
Stjórn félagsins var endurkosin en hana skipa:
Erna Gísladóttir stjórnarformaður, Tómas Kristjánsson varaformaður, Haukur C. Benediktsson, Heimir V. Haraldsson og Ingi Jóhann Guðmundsson.
Varamenn voru kosnir:
Garðar Gíslason, Birgir Birgisson, Eiríkur S. Jóhannsson, Axel Ísaksson og Jón Diðrik Jónsson.
Nánari upplýsingar gefur:
Hermann Björnsson forstjóri í síma 440-2000.
Smelltu á myndina hér að neðan til að skoða ársskýrsluna á rafrænu formi.
Fyrir neðan myndina er ársskýrslan á PDF formi.
Ársskýrsla 2011 - Heilar opnur birtast (PDF 3MB)
Ársskýrsla 2011 - Stakar síður birtast (PDF 3MB)