Frétt á Stöð 2, 3.12.2006
Jólaljós og logandi kerti kveikja hátíðarskap í hugum margra en gleðin getur endað með ósköpum ef ekki er farið varlega.
Sigríður Guðlaugsdóttir komst að því í dag þegar hún heimsótti aðila frá Forvarnahúsi Sjóvá og Slökkviliði Reykjavíkur. Tryggingafélagið Sjóvá og Forvarnarhúsið settu upp brunaæfingu í dag í samvinnu við slökkviliðið en æfinguna á að nýta á fyrir kennslumyndband á vegum Forvarnahússins.
100 kertabrunar í desember
Settir voru upp ýmsir algengir heimilisbrunar sem valda oft miklu tjóni, en auðvelt er að koma í veg fyrir. Einar Guðmundsson hjá Forvarnahúsi Sjóvár stóð fyrir æfingunni í dag. Einar Guðmundsson: "Við erum sérstaklega að vekja athygli á því að í desember þá fjölgar verulega kertabrunum hjá fólki og við erum að sjá að svona meðaltali 100 kertabruna sem verða í desember mánuði einum."
Léttvatnstæki á kertabruna
Best er að slökkva kertabruna með léttvatnstæki, því duftslökkvitæki eru jafnan kraftmikil og duftið dreifist um allt og er erfitt að þrífa, jafnvel þótt lítið sé notað af því. Mest er um vert að gleyma ekki kertunum og láta þau ekki brenna niður.
Sjálfslökkvandi kerti
Einar mælir með sjálfslökkvandi kertum, sem slokkna áður en þau brenna alveg niður. Einar Guðmundsson: Þeir sem eru að gera skreytingarnar sjálfir að þeir setji ekki svona eldsmat í kringum kertið og svo ekki síst að þá þurfum við að passa upp á það að hafa kertið ekki þannig að það geti kviknað í einhverjum öðrum hlutum eins og gardínum.
Varað við greni í jólaskreytingum
Guðmundur Karl Halldórsson, varðstjóri slökkviliðsins, varar við greni í jólaskreytingum eftir því sem líður á aðventuna. Guðmundur Karl Halldórsson: Og sérstaklega, þegar líða fer að jólum og grenið þornar þá er miklu meiri hætta á að kvikni í.
Brunar á eldavélum
Brunar á eldavélum eru hvað algengastir allt árið um kring ekki er óalgengt að kvikni í pottum við matargerð en á hverju ári kviknar auk þess í um það bil 30 pizzakössum sem settir eru á eldavélahellur sem annað hvort eru heitar eða óvart er kveikt á og hitna.