Undanfarin ár höfum við hjá Sjóvá staðið fyrir átaki í framrúðuviðgerðum ásamt samstarfsaðilum okkar á verkstæðum um land allt. Markmið átaksins er einfalt, að auka hlutfall framrúðuviðgerða á móti framrúðuskiptum, enda mun umhverfisvænna, fljótlegra og þægilegra fyrir viðskiptavininn að láta gera við rúðuna en að skipta henni út.
Nokkrir samstarfsaðilar okkar hafa náð áberandi góðum árangri í þessum efnum og ákváðum við að verðlauna þá sérstaklega á dögunum. Það voru verkstæðin G Ingimarsson á Sauðárkróki, R.S.A. Rétting og sprautun á Akureyri og Rúður.is í Hafnarfirði sem hlutu viðurkenningar fyrir hæsta hlutfall viðgerða af framrúðutjónum hjá Sjóvá á árinu 2022. Hlutfallið var á bilinu 55-63% hjá þeim, sem er frábær árangur.
Heilt yfir var hlutfall framrúðuviðgerða á móti framrúðuskiptum 12% hjá samstarfsaðilum okkar á síðasta ári. Verkstæðin þrjú sem hlutu viðurkenninguna sýna okkur því svart á hvítu að við eigum enn að geta hækkað það hlutfall töluvert. Hlökkum við því til að halda átakinu áfram af krafti ásamt samstarfsaðilum okkar.
Hver er ávinningurinn af framrúðuviðgerðum?
Það er allra hagur ef hægt er að gera við skemmd í staðinn fyrir að skipta út framrúðunni fyrir nýja. Viðgerðin er fljótleg og viðskiptavinurinn greiðir hvorki eigin áhættu né missir Stofn endurgreiðslu sína, ef hægt er að gera við rúðuna. Þá losar það 24.000 sinnum minni koltvísýring að gera við framrúðu en að skipta henni út. Það er því samfélagslega ábyrgt að reyna alltaf viðgerð fyrst ef hún er möguleg.
Til að auka líkurnar á því að hægt sé að gera við rúðu sem skemmist mælum við með því að allir séu framrúðuplástur í bílnum sínum. Þannig er hægt að bregðast fljótt við ef skemmd myndast eftir steinkast, smella plástrinum á skemmdina og fara með hann á verkstæði.