Ný rannsókn meðal framhaldsskólanema sýnir að:
- 14% færri framahaldsskólanemar töluðu í síma án handfrjálsbúnaðar undir stýri árið 2018 en 2016.
- 6% færri framhaldsskólanemar senda eða skrifa skilaboð undir stýri.
- Fleiri nemendur senda hins vegar Snapchat skilaboð eða leita að upplýsingum á netinu en fyrir þremur árum.
Töluvert færri sem tala í símann án handfrjáls búnaðar
Símnotkun framhaldsskólanema undir stýri hefur minnkað um 4% frá 2016 samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem unnin var fyrir Sjóvá.
Árið 2016 svöruðu 83% nemenda að þeir notuðu símann stundum eða oftar undir stýri, árið 2018 lækkaði þessi tala niður í 79%. Þó að notkunin sé ennþá mikil þá erum við í fyrsta skipti að sjá notkunina dragast saman. Það voru til að mynda 14% fleiri nemendur sem sögðust aldrei tala í símann án handfrjáls búnaðar nú en árið 2016.
6% fleiri segjast þá aldrei senda eða svara skilaboðum undir stýri en fyrir þremur árum.
Fleiri eru að nota símann til að leita að upplýsingum á netinu
Það varpar þó ákveðnum skugga á þessa jákvæðu þróun að það mælist aukning á ákveðinni notkun síma undir stýri sem er mjög áhættusöm. Töluvert fleiri nemendur leita t.d. að upplýsingum á netinu undir stýri en árið 2016 en þar munar 5% og aðeins fleiri senda Snapchat.
„Það er vissulega gott að við séum að sjá einhverja jákvæða þróun í þessum efnum,“ segir Karlotta Halldórsdóttir, verkefnastjóri forvarna. „Það hvetur okkur áfram í baráttunni gegn símnotkun undir stýri. Um leið og það er ánægjulegt að sjá að forvarnarstarf og aukin umræða sé að skila árangri þá getum við ökumenn hins vegar gert mun betur og við verðum að halda áfram að bæta okkur. Einfaldast og öruggast er að sleppa bara alveg að nota símann í umferðinni, þannig tryggum við okkar eigin öryggi og annarra sem best.“
Rannsókn sem nær til allra framhaldsskólanema á landinu
Rannsóknin var unnin af Rannsóknum og greiningu við Háskólann í Reykjavík og náði hún til allra framhaldsskólanema á landinu. Sambærileg rannsókn var unnin árið 2016 og sýnir samanburður á niðurstöðunum að í heildina hefur símnotkun framhaldsskólanema undir stýri dregist saman um 4%.