Nú í svartasta skammdeginu er mikilvægt að við gætum öll að okkur í umferðinni. Því miður hefur verið talsvert um óhöpp og slys á höfuðborgarsvæðinu tengd óvörðum vegfarendum undanfarið og oft segjast bílstjórar ekki hafa séð viðkomandi. Hopp Reykjavík hafa nýverið sett auka endurskinslímmiða á allar sínar rafskútur og forvarnaskilaboð í Hopp appið.
Ábyrgð ökumanna
Mikilvægt er að ökumenn fari að öllu með gát og virði hámarkshraða. Með því auka þeir öryggi allra vegfarenda. Mikill munur er á því að vera á 30 kílómetra eða 50 kílómetra hraða, svo dæmi sé tekið. Hemlunarvegalengd lengist umtalsvert og getur skilið á milli feigs og ófeigs. Einnig er nauðsynlegt að halda athygli við aksturinn og ekki freistast til þess að vera í símanum á ferð. Í fyrsta lagi er það ólöglegt og í öðru lagi stórhættulegt. Augnabliks athugunarleysi getur reynst dýrkeypt í umferðinni og þegar þú notar símann undir stýri er margfalt líklegra að þú valdir slysi. Óvarðir vegfarendur mega sín lítils í árekstri við þung farartæki og því minni sem hraðinn er því meiri tími gefst til að bregðast við óvæntum aðstæðum. Þeir sem eru á rafhlaupahjólum þurfa einnig að virða reglur um stíga og akbrautir en það má ekki aka rafskútum á akbraut. Förum því varlega og gefum okkur frekar nokkrar aukasekúndur í umferðinni en að taka sénsinn:
- Virðum hámarkshraða
- Lítum til beggja hliða og stöðvum við gangbrautir
- Höldum fókus! Látum símann eiga sig á ferðinni og verum vakandi í umferðinni
Sýnileg á Hoppinu
Hopp rafskútuleiga leggur mikið upp úr að hámarka öryggi þeirra sem leigja rafskútur hjá fyrirtækinu. Lagt er upp úr að vera með öflug rafhlaupahjól, afturhjóladrifin og vel merkt með ljósum að framan og aftan. Rafskúturnar eru því mjög sýnilegar í umferðinni en nú hefur Hopp Reykjavík bætt um betur og sett endurskinslímmiða með auknu endurskini á báðar hliðar hjólanna, framan á þau og undir hjólin. Sjá betur á meðfylgjandi myndum.
Forvarnaskilaboð til viðskiptavina
Hopp Reykjavík hefur einnig nýtt þann möguleika í Hopp appinu að vekja athygli viðskiptavina á varasömum aðstæðum, til dæmis ef mikil hálka er á stígum. Um þessar mundir birtast skilaboð til vegfarenda þar sem brýnt er fyrir þeim mikilvægi þess að aka eftir aðstæðum og gæta sín á bifreiðum, öryggisins vegna. Við fögnum þessu góða frumkvæði samstarfsaðila okkar hjá Hopp sem láta sig forvarnir varða.
Blönduð umferð og sýnileiki
Í skammdeginu er mikilvægt að vera á varðbergi og taka sérstaklega vel eftir. Börn á leið í skóla sjást oft illa í ljósaskiptunum og nauðsynlegt er fyrir alla óvarða vegfarendur að nota endurskinsmerki og/eða endurskinsvesti. Einnig er mikilvægt að ökumenn muni eftir að kveikja á ökuljósum en þau fara ekki endilega sjálfkrafa í gang og líklegt að kveikja þurfi á þeim. Skylda er að vera með ökuljósin kveikt, allan sólarhringinn og allan ársins hring, bæði að framan og aftan. Umferðin er enn fjölbreyttari en áður þar sem nú eru auk gangandi og akandi margir hjólandi eða á rafskútum og rafhjólum ýmiss konar. Tíma tekur að skapa örugga innviði fyrir fjölbreytta umferð og þurfum við öll að fara gætilega og sýna tillitssemi. Umferðin er samstarfsverkefni og gengur ekki upp nema allir leggi sitt af mörkum.