Mikilvægi þess að börn séu í bílstól með baki sannaði sig svo um munar á dögunum þegar ekið var af miklum hraða á kyrrstæðan bíl. Ekið var aftan á bíl þar sem sjö ára gömul stúlka sat aftur í. Stúlkan var sem betur fer í bílstól með baki og var það að öllum líkindum ástæða þess að hún slasaðist einungis lítillega.
Eftir að barn hefur vaxið upp úr barnabílstól er mikilvægt að hafa þau sem lengst í bílsessu með baki, eða allt þar til þau hafa náð 35 kg þyngd. Ekki er nægilega öruggt að setja börn á bílsessur sem ekki eru með baki og alls ekki öruggt að barnið sé eingöngu með bílbelti. Á bílsessum án baks liggur beltið ekki rétt yfir öxlina og þær geta einnig auðveldlega skotist undan börnunum við högg. Í umræddu tilfelli höfðu viðbragsaðilar orð á að bílstóllinn, sem var með baki, hefði mögulega bjargað lífi stúlkunnar.
Við val á bílstól þarf að hafa ýmislegt í huga, s.s. þyngd og aldur barns og hvort að stóllinn passi inn í bílinn. Ítarlegar leiðbeiningar um hvernig skuli bera sig að við val á bílstól er að finna hér. Öruggast er að reyna að hafa barnið í bakvísandi stól eins lengi og mögulegt er, þó að kvartanir berist frá barninu þá er það öruggasti mátinn og skipta síðan yfir í bílsessu með baki.
Nauðsynlegt er að vera með endingartíma stólsins á hreinu en hann getur verið mismunandi. Ungbarnabílstólar eru þannig að jafnaði með 5 ára endingartíma en bílstólar fyrir eldri börn geta jafnvel dugað í 10 ár. Mikilvægt er að hafa í huga að ekki er hægt að meta ástand bílstóla með sjónskoðun, eina örugga leiðin til að vita að hann sé í lagi er í raun að brjóta hann upp. Bílstólar þurfa ekki að lenda í miklu hnjaski til að geta skemmst, ef bílstóll hefur lent í árekstri eða jafnvel dottið í gólfið þá getur hann verið skemmdur án þess að það sjáist á honum. Því getur verið varasamt að notast við notaðan bílstól þar sem ekki er hægt að meta ástand stólsins.
Við viljum leggja áherslu á mikilvægi þess að hafa börnin sem lengst í bakvísandi stólum og síðan eins lengi og hægt er í bílsessu með baki. Það getur skipt öllu máli ef árekstur verður. Hægt er að finna frekari upplýsingar um val og notkun á bílstólum inni á heimasíðu Miðstöðvar slysavarna barna. Við mælum eindregið með að foreldrar kynni sér þessi mál vel. Einnig er hægt að hafa samband við Karlottu Halldórsdóttur verkefnastjóra forvarna hjá Sjóvá.