Eldvarnabandalagið sem Sjóvá er aðili að mun hefja átak til þess að efla eldvarnir fyrirtækja um allt land. Jafnframt mun átakið ná til starfsfólks og heimila viðkomandi fyrirtækja. Stuðlað verður að því að fyrirtæki taki upp eigið eftirlit með eldvörnum og að starfsmenn verði virkir þátttakendur í eldvörnum, bæði á vinnustaðnum og heima.
Eignatjón vegna eldsvoða nemur að jafnaði um 1.500 milljónum króna ár hvert. Fólk lætur reglulega lífið í eldsvoðum og margir verða fyrir heilsutjóni.
Að Eldvarnabandalaginu stendur öflugur hópur stofnana, félagasamtaka og tryggingafélaga sem hafa það sameiginlega markmið að auka eldvarnir til þess að draga úr tjóni á lífi, heilsu og eignum. Bandalagið var stofnað 2010 og gaf þá út vandað fræðsluefni um eldvarnir heimila sem síðan hefur fengið víðtæka dreifingu.
Aðild að Eldvarnabandalaginu eiga: Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, Félag slökkviliðsstjóra, Mannvirkjastofnun, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Sjóvá-Almennar tryggingar, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, TM, VÍS og Vörður tryggingar.
Fréttatilkynning frá Eldvarnabandalaginu
Mynd frá undirskrift átaksins
Myndir
Smelltu á mynd til að stækka