Mikið hefur snjóað á Norðausturlandi að undanförnu og hafa til að mynda einhver snjódýptarmet verið slegin. Á næstu dögum eru mikil hlýindi í kortunum og þar sem er snjóþungt skapast hætta á svokallaðri asahláku, sem við Íslendingar erum farin að þekkja vel. Þá er nauðsynlegt að huga að niðurföllum og hreinsa frá þeim snjó, klaka eða óhreinindi sem geta hindrað vatnsstreymi.
Almenna reglan er sú að skemmdir vegna utanaðkomandi vatns er ekki bótaskylt tjón, en þó eru skemmdir vegna asahláku eða úrhellisrigningar undanskyldar. Hér að neðan má sjá hvernig tryggingarnar okkar taka á asahláku.
Heimili
Skýfalls- og asahlákutrygging í Fasteignatryggingu bætir tjón á húseign ef jarðvegsvatn flæðir inn í hana vegna úrhellisrigningar (skýfalls) eða snjóbráðar (asahláku). Með úrhellisrigningu og snjóbráð er átt við að vatnsmagnið verði skyndilega svo mikið að jarðvegsniðurföll leiði það ekki frá.
Innbústrygging í Fjölskylduvernd bætir tjón á innbúi vegna skýfalls- og asahláku. Innbúskaskó gæti einnig komið til skoðunar í þessu sambandi.
Tryggingarnar taka ekki til tjóns sem verður þegar vatn flæðir inn um þök, glugga, meðfram svölum og þakrennum þar sem viðhalds er þörf. Skýfalls- og asahlákutrygging bætir eðli málsins samkvæmt fyrst og fremst tjón sem verður í kjallara eða á jarðhæð fasteignar þar sem vatn flæðir inn.
Það er skilyrði bótaskyldu að hreinsað hafi verið frá niðurföllum svo að snjór, klaki og óhreinindi stífli þau ekki.
Fyrirtæki
Fyrir fyrirtæki þá er ákvæðið um Skýfalls- og asahláku innifalið í Húseigendatryggingunni en ekki Fasteignatryggingunni. Húseigendatryggingin veitir víðtækari vernd, því er mikilvægt að skoða hvaða tryggingar eru til staðar í fyrirtækinu.
Bifreiðar
Kaskótryggging bætir tjón sem verður á bifreið ef henni er ekið í óvæntan poll (á malbiki) en eigin áhættan er þá 50% af tjónskostnaði. Kaskótryggingin kann einnig að bæta vatnstjón á kyrrstæðri bifreið t.d. í bílakjallara þar sem flætt hefur inn sökum óveðurs. Þessi tilvik verður þó að meta hverju sinni.