Ársfundur Eldvarnarbandalagsins var haldinn föstudaginn 22 mars 2013. Á fundinum var farið yfir helstu verkefni Eldvarnarbandalagsins en bandalagið er samráðsvettvangur um auknar eldvarnir. Aðild að því eiga auk Sjóvár:
-
Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands
- Félag slökkviliðsstjóra
- Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna
- Mannvirkjastofnun
- Slysavarnafélagið Landsbjörg
- Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins
- TM hf.
- Vátryggingafélag Íslands hf.
- Vörður tryggingar hf.
Fram kom að næstu verkefni hópsins munu lúta að því að auka brunavarnir hjá yngri aldurshópum og þá sérstaklega þeim sem búa í leiguhúsnæði. Kannanir sem Eldvarnabandalagið hefur látið framkvæma sýna að einstaklingar á aldursbilinu 20-30 ára huga oft ekki að brunavörnum. Allt of algengt er að einungis einn reykskynjari sé í húsnæði og að hvorki slökkvitæki né eldvarnateppi séu til staðar.
Eldvarnabandalagið hyggst á þessu ári leggja aukna áherslu á fræðslu til þessa hóps og vinna að breytingu á reglugerð um leiguhúsnæði þar sem kveðið verður á um að ekki verði hægt að leigja út húsnæði nema í því séu reykskynjarar eða slökkvibúnaður. Eldvarnarbandalagið gaf út handbók heimilanna um brunavarnir árið 2011 en markmið handbókarinnar var að þeir aðilar sem standa að bandalaginu gefi samskonar ráð og skilaboð um brunavarnir til einföldunar fyrir almenning. Einnig verður áfram unnið með brunavarnir fyrirtækja. Til eru bæklingar sem viðskiptavinir, bæði einstaklingar og fyrirtæki, geta fengið endurgjaldslaust, prentað eða á rafrænu formi. Nálgast má efnið hér á vef Sjóvár.
Manntjón 1979-2012
Í erindi sem Guðmundur Gunnarsson yfirverkfræðingur Mannvirkjastofnunar hélt á fundinum kom m.a. fram að ef horft er til Norðurlandanna og gerður samanburður á helstu orsökum bruna þar sem banaslys verða þá sé áberandi hversu reykingar eru stór hluti banaslysa í kjölfar bruna í Danmörku. Af þessu má sjá hversu mikilvæg góð slysaskráning og greining á atvikum er til þess að vinna enn frekar að forvörnum á þessu sviði. Það sést t.d. þegar tölur frá Noregi og Svíþjóð eru skoðaðar en þar er hátt hlutfall eldsvoða af óþekktum orsökum. Þegar skoðað er hvenær dags banaslys vegna bruna verða hér á landi þá kemur í ljós að eingöngu þriðjudagar og miðvikudagar skera sig úr en á þeim dögum eru hvað fæst banaslys skráð. Janúar er sá mánuður sem hvað flest banaslys verða í kjölfar bruna.
Orsakir bruna þar sem banaslys verður
Á ársfundinum kom fram að Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins kallar eftir auknu samstarfi við tryggingafélög um brunavarnir fyrirtækja og því fagnar Sjóvá. Eldvarnir einstaklinga og fyrirtækja eru forvarnir sem allir aðilar geta sameinast um að sé sameiginlegt hagsmunamál og öll samvinna er til bóta. Slíka samvinnu má t.d. nýta sem hluta af eftirfylgni eftir að áhættugreining hefur farið fram hjá fyrirtæki þar sem eldvörnum hefur verið ábótavant eða þörf á frekari ráðleggingum.