- Hagnaður Sjóvár eftir skatta 1,8 milljarðar króna
- Iðgjöld Sjóvár aukast um 2,2% milli ára
- Vátryggingarekstur gengur vel og samsett hlutfall helst lágt
- Tjónaþróun jákvæð og tjónahlutfall helst lágt
- Traust eignasafn
- Undirbúningur fyrir skráningu á markað gengur vel
Vátryggingarekstur stöðugur og arðbær
Hagnaður Sjóvár eftir skatta nam 1.790 milljónum króna í fyrra samanborið við 2.057 milljónir árið 2012. Iðgjöld ársins jukust um 2,2% milli ára og námu námu 13.017 milljónum króna. Samsett hlutfall var 94,7% og helst nær óbreytt milli ára, sem sýnir að vátryggingarekstur Sjóvár er traustur. Samsett hlutfall Sjóvár hefur haldist undir 100% frá árinu 2010. Vegur þar þyngst lágt tjónahlutfall en það var 65,1% á árinu 2013.
Hermann Björnsson, forstjóri: „Afkoma Sjóvár á árinu 2013 var góð og félagið er enn að vaxa að styrk. Samsett hlutfall helst lágt milli ára sem sýnir hve vel okkur hefur tekist að láta iðgjöld mæta tjónum og rekstrarkostnaði. Vátryggingareksturinn gengur því vel. Eiginfjárhlutfall félagsins er sterkt og gjaldþol þess hækkar. Starfsánægja hjá Sjóvá er mikil og þjónustukannanir staðfesta að viðskiptavinir okkar eru ánægðir með þjónustuna. Það hefur verið yfirlýst stefna eigenda að skrá Sjóvá á markað og áhersla okkar hefur verið lögð á að styrkja innviðina til að tryggja sem best að félagið sé vel undirbúið fyrir áskoranir framtíðarinnar.“
Sterkur efnahagur
Fjárfestingatekjur námu 2.191 milljónum króna sem er nokkur lækkun frá fyrra ári þegar þær voru 2.530 milljónir. Helsta skýringin er lægri ávöxtun skuldabréfa á árinu. Í lok árs nam verðbréfaeign félagsins 30.010 milljónum króna.
Eignir félagsins þann 31. desember 2013 námu 42.705 milljónum króna og hækkuðu um 6% á árinu. Eigið fé þann 31. desember 2013 nam 16.781 milljónum króna og hefur aukist jafnt og þétt síðastliðin ár. Eiginfjárhlutfall er sterkt og var 39,3% í lok árs. Arðsemi eigin fjár var 11,9% á árinu.
Skráningarferli gengur vel
Stjórn Sjóvár samþykkti á síðasta ári að stefnt skyldi að skráningu félagsins á Aðalmarkað NASDAQ OMX Iceland. Undirbúningur fyrir það ferli hófst á sumarmánuðum og hefur gengið skv. áætlun. Stefnt er að því að hlutabréf félagsins verði tekin til viðskipta í apríl n.k. að undangengnu almennu útboði.
Nánari upplýsingar gefur Hermann Björnsson forstjóri, netfang hermann.bjornsson@sjova.is eða í síma 440-2000.