Á blaðamannafundi í Glitnis var kynnt átak gegn kynferðislegu ofbeldi á börnum. Menningarsjóður Glitnis og Sjóvá styrkti Blátt áfram, átaksverkefni UMFÍ, til þess að dreifa 7 skrefa bæklingi inn á öll heimili á Íslandi og jafnframt til að kynna útgáfuna í fjölmiðlum. Það eru systurnar Svava og Sigríður Björnsdóttir sem hafa leitt átaksverkefnið.Forvarnir efldar
Markmiðið með bæklingnum er að efla forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi á börnum með því að höfða til ábyrgðar fullorðinna sem að börnum og unglingum koma. Að fullorðna fólkið axli þá ábyrgð að ræða um þetta viðkvæma mál á jákvæðan og fræðandi hátt við börnin.
Áhersla er lögð á að uppfræða alla þá sem vinna með börnum, þar á meðal aðstandendur og kennara barna. Með því er verið að gera fullorðnu fólki ljóst að ábyrgðin er þeirra og auðvelda þeim að leita svara við spurningum sem gætu komið upp eins og til að mynda hvert eigi að leita, hver séu merkin og hvað eigi að gera þegar grunur leikur á kynferðislegri misnotkun barns.
Komið í veg fyrir frekari vandamál
Með forvarnarvinnu eins og þessari er stefnt að því að koma í veg fyrir frekari vandamál á fullorðinsárum hjá þeim börnum sem verða fyrir þessari ógæfu á barnsaldri. Reynslan sýnir að þau geta leiðst út í þunglyndi, drykkju, eiturlyfjaneyslu, vændi, ofbeldi og fleira. Það er von aðstandenda að þetta verkefni sé skref í rétta átt.
“Við hjá Glitni höfum fylgst grannt með því góða starfi sem systurnar Svava og Sigríður Björnsdóttir hafa unnið, en þær eiga heiðurinn af því að setja á fót átaksverkefnið Blátt áfram. Það er mikilvægara en orð fá lýst að vekja athygli á því þjóðfélagsböli sem kynferðislegt ofbeldi á börnum er. En ekki síður að leita leiða til að koma í veg fyrir að það geti átt sér stað og koma þeim börnum til hjálpar sem verða fyrir þessari ógæfu. Í því skyni er mikilvægt að vekja foreldra til umhugsunar. Þess vegna lögðum við okkar lóð á vogarskólarnar til þess að sjö skrefa bæklingurinn yrði sendur á öll heimili á Íslandi í dag og í gær og að vakin væri athygli á útgáfunni í fjölmiðlum,” sagði Bjarni Ármannsson, forstjóri Glitnis, við þetta tækifæri.
Útgáfa bæklingsins er styrkt af Menningarsjóði Glitnis og Sjóvá. Faglegur stuðningur við verkefnið kemur frá Barnaverndarstofu og Barnahúsi. Samtökin Darkness to Light í Bandaríkjunum gáfu leyfi fyrir þýðingu og útgáfu á bæklingnum á íslensku.
Samstarfsaðilar vegna útgáfu bæklingsins eru Neyðarlínan 112 og Hjálparsími Rauða Krossins 1717. Einnig studdu útgáfu bæklingsins: Dóms og Kirkjumálaráðuneytið, Félagsmálaráðuneytið, Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og Menntamálaráðuneytið