Umhverfi
Við leggjum okkar af mörkum til að stuðla að sjálfbærni og vernd umhverfisins með því að draga úr umhverfisáhrifum starfseminnar með markvissum aðgerðum og ábyrgri og meðvitaðri nýtingu auðlinda. Á þessu sviði liggja helstu tækifæri okkar til áhrifa í öflugum forvörnum og við úrvinnslu tjóna. Unnið var að mörgum fjölbreyttum verkefnum á þessu sviði á árinu.
Nýr og betri framrúðuplástur
Síðustu árin höfum við unnið að því í samstarfi við verkstæði að auka hlutfall framrúðuviðgerða á kostnað framrúðuútskipta, en samkvæmt útreikningum sem verkfræðistofan Mannvit vann fyrir Sjóvá losar það 24.000 sinnum meiri koltvísýring að láta skipta rúðu út en að gera við hana.
Mikilvægur liður í þessu verkefni var að láta hanna og framleiða nýja framrúðuplástra, en notkun þessara plástra getur aukið til muna líkurnar á því að hægt sé að láta gera við skemmda rúðu. Á umbúðum nýja plástursins er upplýsingum um notkun hans og ávinning komið vel til skila, þannig að viðskiptavinurinn sé betur upplýstur. Nýja plástrinum var dreift til verkstæða og útibúa okkar um allt land og viðskiptavinir látnir vita af honum með ýmsum leiðum, markpósti, efni á samfélagsmiðlum og fleira. Hér skiptir enda miklu máli að koma plástrinum í sem mesta dreifingu og miðla upplýsingum um tilgang hans sem víðast.
Fjölgum framrúðuviðgerðum
Á undanförnum árum hefur tekist að auka hlutfall framrúðuviðgerða á móti framrúðuskiptum, í góðri samvinnu við verkstæðin. Því miður sáum við ekki hækkun á þessu hlutfalli á árinu 2022 þó að vissulega hafi verið gert við fleiri rúður en árið á undan. Hlutfall framrúðuviðgerða endaði í 11,92%, sem er lítilleg lækkun úr 12,13% 2021. Góðu fréttirnar eru þó að sé litið á síðustu 6 mánuði ársins var hlutfallið 14%, sem má án efa þakka átaki í upplýsingagjöf, dreifingu nýrra framrúðuplástra og samstarfi í þessum efnum. Við bindum vonir við að þær tölur séu vísbending um það sem koma skal og munum að sjálfsögðu halda samstarfi við verkstæðin áfram. Við stefnum að enn hærra hlutfalli framrúðuviðgerða á næsta ári, enda sjáum við dæmi um frábæran árangur í þessum efnum hjá ákveðnum verkstæðum.
„Hitt er bara svo rosaleg sóun“
Gylfi Ingimarsson stofnaði verkstæði sitt G Ingimarsson á Sauðárkróki árið 2016. Þá hafði hann unnið við bílaviðgerðir um langa hríð og vissi að oft væri hægt að gera við mun fleiri skemmdir en í raun væru lagaðar. Hann dreif því í að stofna fyrirtækið með það að markmiði að gera við sem flestar framrúður. Hlutfall framrúðuviðgerða hjá verkstæði Gylfa var 55% árið 2022, af þeim tjónum sem voru bótaskyld hjá Sjóvá. Það sýnir sannarlega hvað hægt er að gera við mikið af þeim framrúðum sem skemmast.
„Hitt er bara svo rosaleg sóun. Ég geri við það sem er einhver leið að bjarga, því nóg er af hinu samt. Viðmiðið er svona krónupeningur, skemmdin má ekki vera stærri en það og það má ekki gera við skemmd sem er í sjónlínu ökumanns. Fólk er mjög jákvætt fyrir því að láta gera við skemmdina ef það er hægt. Það átta sig þó ekki allir á því að viðgerð sé möguleiki en þegar ég útskýri málið sér það klárlega kostina, fyrir sig sjálft, ökutækið og umhverfið. Vandamálið er hins vegar að oft kemur fólk til mín og segir „Ég þarf að fá nýja framrúðu hjá þér, ég var búinn að vera með smá stjörnu í rúðunni í langan tíma og alltaf á leiðinni til þín og svo allt í einu sprakk hún!“. Þetta er áskorunin, að fá fólk til að koma áður en rúðan springur út frá skemmdinni, t.d. í frosti og sól.“- Gylfi Ingimarsson, eigandi G Ingimarsson
Umhverfisframtak ársins
Umhverfisverðlaun atvinnulífsins voru tilkynnt á Umhverfisdegi atvinnulífsins í byrjun október. Þar hlaut Sjóvá verðlaunin Umhverfisframtak ársins 2022 fyrir að huga vel að umhverfisáhrifum í starfsemi sinni, með fjarskoðunarlausninni Innsýn og átaki við að upplýsa viðskiptavini um umhverfislegan ávinning af framrúðuviðgerðum.
Í rökstuðningi dómnefndar kom fram að Sjóvá leiti stöðugt leiða til að minnka umhverfisáhrif af tjónavinnslu með hag viðskiptavina og samfélagsins alls að leiðarljósi. Innsýn og framrúðuplástursverkefnið endurspegli þessar áherslur vel og styðji við hringrásarhagkerfið.
„Það skiptir Sjóvá miklu máli að leggja sitt að mörkum þegar kemur að umhverfismálum. Helstu tækifæri okkar á þessu sviði liggja eðli málsins samkvæmt í tjónavinnslu og forvörnum. Við viljum nýta þau tækifæri sem við höfum í nýsköpun og vöruþróun til að bæta þjónustu okkar við viðskiptavini um leið og við hugum að umhverfinu og hagsmunum samfélagsins alls. Þetta fer nefnilega yfirleitt vel saman, líkt og framrúðuplástursverkefnið og fjarskoðunarlausnin Innsýn sýna. Við lítum á þessa viðurkenningu sem hvatningu til að halda áfram af krafti á þessari braut og það ætlum við okkur sannarlega að gera.”- Elín Þórunn Eiríksdóttir, framkvæmdastjóri Tjónasviðs