Heildar hagnaður ársins nam 2.723 m.kr. og var samsett hlutfall 95,8% á árinu samanborið við 90,9% árið áður.
Afkoma ársins 2022 af vátryggingarekstri fyrir skatta nam 1.930 m.kr., og nam afkoma af fjárfestingastarfsemi 1.232 m.kr. fyrir skatta og var hún betri en vænta mátti þegar litið er til þróunar markaða almennt. Ávöxtunarkrafa skuldabréfa hækkaði og gengi hlutabréfa lækkaði. Jákvæð afkoma skýrist fyrst og fremst af virðisaukningu óskráðra hlutabréfa.
Iðgjaldavöxtur nam um 11% á árinu og námu iðgjöld ársins 26.533 m.kr. samanborið við 23.953 m.kr. árið áður og vöxtur eigin iðgjalda var 9,8%. Styður sterk staða og ímynd félagsins við vöxtinn auk þess sem aukin umsvif í atvinnulífinu, einkum í ferðaþjónustunni, birtast í auknum iðgjöldum. Samhliða auknum umsvifum er tjónakostnaður að aukast eftir að hafa dregist saman á árunum 2020-2021, aðallega vegna heimsfaraldurs. Eigin tjón ársins hækkuðu um 19,1% milli ára, námu 19.423 m.kr. á árinu 2022 samanborið við 16.307 árið 2021. Tjónahlutfall ársins var 75,9% samanborið við 69,1% árið á undan. Þessi tjónavöxtur skýrist að hluta til af því að samanburðarárið á undan var hagfellt þar sem umsvif í samfélaginu voru minni af ástæðum sem áður hafa verið raktar.
Afkoma af vátryggingastarfsemi fyrir árið 2022 var í takt við útgefnar horfur fyrir árið og verður að teljast afar góð þegar haft er í huga að í maí ráðstafaði Sjóvá, eitt tryggingafélaga, um 600 m.kr. til viðskiptavina á einstaklingsmarkaði í formi endurgreiðslu. Endurgreiðslan samsvarar fjárhæð eins mánaðar iðgjaldi lögboðinna ökutækjatrygginga. Þetta er í annað sinn sem Sjóvá ráðstafar fjármunum til viðskiptavina með þessum hætti. Ráðstöfunin hefur mælst afar vel fyrir hjá viðskiptavinum sem og öðrum og leitt af sér ný viðskipti og aukna tryggð núverandi viðskiptavina. Það ásamt áherslu okkar á afburða þjónustu um allt land hefur átt sinn þátt í því að afkoma af vátryggingastarfseminni er mjög góð þrátt fyrir að meðalhagnaði eins ársfjórðungs hafi verið ráðstafað beint til viðskiptavina í formi endurgreiðslu. Þá fengu rúmlega 31 þúsund tjónlausir viðskiptavinir okkar samtals 808 milljónir króna með Stofn-endurgreiðslu á árinu. Var það 28. árið í röð sem við endurgreiðum tjónlausum viðskiptavinum í Stofni hluta iðgjalda sinna, en Sjóvá er eina tryggingafélagið á íslenskum markaði sem gerir slíkt.
Reksturinn til lengri tíma hefur almennt einkennst af góðum iðgjaldavexti umfram vöxt eigin tjóna og er það í samræmi við stefnu félagsins um viðunandi arðsemi af vátryggingarekstrinum. Vátryggingareksturinn hefur allt frá öðrum ársfjórðungi 2016 skilað jákvæðri afkomu. Við erum stolt af þeim árangri en hann byggir á fjölþættum aðgerðum sem snúa að iðgjaldasetningu, áhættumati, forvörnum, aukinni sölu og góðu samtali við okkar viðskiptavini. Stjórnendur hafa lagt ríka áherslu á heilbrigðan grunnrekstur allt frá því að félagið var skráð á hlutabréfamarkað. Góður iðgjaldavöxtur hefur verið bæði á einstaklings- og fyrirtækjamarkaði og í nær öllum vátryggingaflokkum. Rekstrarniðurstaðan telst því sterk og er ánægjulegt að vöxtur iðgjalda á fyrirtækjamarkaði, sér í lagi í ferðaþjónustu, hafi tekið við sér eftir samdrátt vegna áhrifa heimsfaraldurs. Í gegn um heimsfaraldurinn lögðum við okkur fram um að meta aðlaga vátryggingavernd fyrirtækja í viðskiptum og vinna með þeim að lausnum á áskorunum þeirra. Við finnum fyrir ánægju með hvernig við komum til móts við viðskiptavini við þær krefjandi aðstæður sem uppi voru, bæði á fyrirtækjamarkaði, sem og á einstaklingsmarkaði.
Sjóvá mældist efst tryggingafélaga í Íslensku ánægjuvoginni 2022, sjötta árið í röð, en ánægjuvogin mælir hversu ánægðir viðskiptavinir eru með þjónustu fyrirtækja í ýmsum atvinnugreinum. Marktækur munur mældist á milli Sjóvá og annarra tryggingafélaga auk þess sem ánægjan viðskiptavina mælist sú mesta meðal fjármálafyrirtækja. Við erum afar þakklát fyrir að okkar viðskiptavinir séu þeir ánægðustu á tryggingamarkaði. Framúrskarandi þjónusta hefur um árabil verið okkar leiðarljós, hvort sem þjónustan er veitt með stafrænum lausnum eða með beinum samskiptum í útibúum okkar um land allt.
Það er jafnframt okkar sannfæring að ánægt starfsfólk sé forsenda þess að vera þjónustufyrirtæki í fremstu röð og leggjum við ríka áherslu á að hlúa að mannauði okkar og að viðhalda góðri fyrirtækjamenningu. Við erum stolt af því að hafa á árinu fengið viðurkenningu FKA og Jafnvægisvogarinnar sem veitt er þeim fyrirtækjum sem þykja skara fram úr í jafnréttismálum. Á öðrum ársfjórðungi hlaut Sjóvá nafnbótina Fyrirtæki ársins í árlegri starfsánægjukönnun VR, sem er stærsta vinnumarkaðskönnunin sem framkvæmd er á Íslandi. Þetta er fimmta árið í röð sem Sjóvá hlýtur þessa nafnbót. Hún er okkur mikils virði og staðfestir góða vinnustaðamenningu og ánægju starfsmanna. Sjóvá skorar hæst allra stórra fyrirtækja á undirþáttunum ánægja og stolt ásamt jafnrétti. Við erum afar þakklát fyrir þessa eftirsóknarverðu nafnbót.
Á árinu var unnið að stefnumótun til framtíðar með því að huga að langtímamarkmiðum starfseminnar og endurstilla kúrsinn. Allt er rekstrarumhverfið breytingum háð og þarf þjónustan því að vera í sífelldri mótun til að taka mið af þörfum, væntingum og vilja viðskiptavina og þeim breytingum sem verða á samfélaginu. Stefnumið hafa nú verið endurnýjuð, nýjar og metnaðarfullar áherslur og markmið verið sett fram, enda þótt allir byggi þessir þættir áfram á sama grunni og áður. Áhersla okkar er sem fyrr á að veita framúrskarandi þjónustu og tryggja að þjónustan sé aðgengileg. Frumkvæði að samskiptum og fagleg ráðgjöf styðja okkur enn betur í þeirri vegferð. Regluleg yfirferð vátryggingaverndar viðskiptavina tryggir að þeir séu rétt tryggðir, þekki tryggingaverndina og séu vel upplýstir um stöðu sína ef til tjóns kemur. Við endurskoðum einnig reglulega vöruframboð, tryggingavernd og skilmála og höfum breytt mörgum skilmálum á síðustu tveimur árum þannig að tryggingavernd viðskiptavina eykst án þess að iðgjöld þeirra hafi hækkað.
Við viljum vera til staðar og mæta viðskiptavinum á þeim vettvangi sem þeir kjósa. Við höfum því talið mikilvægt að styrkja stafrænar þjónustulausnir og leggjum áfram áherslu á mannlega mýkt þar sem við á. Á árinu 2022 litu dagsins ljós ýmsar nýjungar á sviði stafrænnar þjónustu sem hefur verið afar vel tekið. Innleiðing fleiri rafrænna tjónstilkynninga hefur einfaldað viðskiptavinum ferlið til muna og rafrænn fyrirtækjaráðgjafi er að sanna gildi sitt en honum var meðal annars ætlað að koma til móts við þarfir einyrkja og lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem fá með einföldum hætti ráðgjöf um tryggingaþörf og valkosti fyrir þeirra rekstur.
Sjóvá hefur um árabil unnið að forvörnum enda öllum til heilla að fyrirbyggja tjón og að stuðla að góðu og öruggu samfélagi. Forvarnaverkefni ársins 2022 voru líkt og áður afar fjölbreytt en byggja í grunninn öll á samstarfi og miðlun upplýsinga. Birtar voru greinar í fjölmiðlum, sendir voru markpóstar og þrír nýir þættir birtust í Sjóvá spjallinu á árinu, gefnir voru út bæklingar og forvarnamyndbönd birt á sjova.is.
Við lögðum sem fyrr áherslu á gott samstarf við fyrirtæki í viðskiptum um forvarnir og öryggismenningu og eru áhættuskoðanir, heimsóknir og fræðslufundir mikilvægir þættir forvarna hjá okkur. Helstu áskoranir okkar og tækifæri til framtíðar felast í að vinna þétt í öflugu samstarfi með viðskiptavinum okkar í þeim tilgangi að fækka tjónum.
Mörg forvarnarverkefni eru unnin í samstarfi við ýmsa góða aðila og félagið styrkir fjölbreytt félagasamtök sem vinna af krafti að forvörnum. Á árinu var stærsti viðburðurinn afhending fyrsta björgunarskips Slysavarnafélagsins Landsbjargar en það kom til landsins í september. Þetta er fyrsta skipið af þrettán og var það afhent í Vestmannaeyjum við hátíðlega athöfn. Við erum stolt og ánægð að hafa styrkt Landsbjörg um 142,5 m.kr. til kaupa á fyrstu þremur skipunum og að geta unnið með Landsbjörgu að brautargengi þessa stóra og mikilvæga verkefnis. Sjóvá hefur verið aðalbakhjarl Landsbjargar um áratuga skeið og átt afar traust og gott samstarf við samtökin og er okkur því sérstakt ánægjuefni að styðja við þeirra mikilvæga starf með þessum hætti og sinna um leið samfélagslegri ábyrgð okkar.
Sjóvá hlaut á árinu verðlaunin Umhverfisframtak ársins 2022 frá Samtökum Atvinnulífsins fyrir að huga vel að umhverfisáhrifum í starfsemi fyrirtækisins. Viðurkenningin laut annars vegar að notkun fjarskoðunarlausnarinnar Innsýnar þar sem hægt er að skoða, leiðbeina og jafnvel afgreiða tjón í gegnum farsíma tjónþola. Eins og nærri má geta sparar þetta tíma og getur dregið úr umfangi tjóns auk þess sem hundruðir ekinna kílómetra sparast. Einnig var veitt viðurkenning fyrir átak í fræðslu um notkun framrúðuplástra sem eykur möguleika á að hægt sé að gera við framrúður í bílum í stað þess að skipta þeim út. Við þetta sparast miklir fjármunir sem viðskiptavinir og samfélagið njóta góðs af og ekki síður umhverfið enda koma viðgerðir í veg fyrir mikla sóun. Við viljum halda áfram á þeirri braut að nýta þau tækifæri sem við höfum til að bæta þjónustu okkar við viðskiptavini um leið og við hugum að umhverfinu og hagsmunum samfélagsins alls. Þetta fer yfirleitt vel saman, líkt og framrúðuplástursverkefnið og fjarskoðunarlausnin Innsýn sanna. Við lítum á þessa viðurkenningu til okkar sem hvatningu til að halda áfram af krafti á þessari braut.
Allt frá skráningu félagsins á markað hefur það verið stefna stjórnar að Sjóvá sé arðgreiðslufélag og að a.m.k. 50% af hagnaði hvers árs sé greiddur út í arð til hluthafa, að teknu tilliti til gjaldþols félagsins. Stjórn mun leggja til við aðalfund að greiða út arð sem nemur 1,61 kr. á hlut fyrir rekstrarárið 2022 eða um 1.900 milljónir króna sem verður greiddur út síðar í mánuðinum ef tillagan fær brautargengi. Félagið er fjárhagslega sterkt með gjaldþolshlutfall 1,41 eftir fyrirhugaða arðgreiðslu og tilkynnt endurkaup, sem er vel innan áhættuviðmiða stjórnar. Eiginfjárhlutfall eftir fyrirhugaða arðgreiðslu er 28,6% og fjárhagsstaða félagsins traust og félagið eftir sem áður fært um að standa þétt við bakið á viðskiptavinum og mæta ófyrirséðum áföllum í rekstri.
Í árslok 2022 voru hluthafar 1.265 en þeir voru 1.295 í ársbyrjun og fækkaði þeim því um 30 á árinu. 52,3% hlutafjár eru í eigu lífeyrissjóða, 35,7% í eigu einstaklinga og fyrirtækja, 4,7% í eigu innlendra verðbréfasjóða, 1,2% í eigu fjármálafyrirtækja, 3,1% í eigu erlendra verðbréfasjóða og 3,0% eigin hlutir.
Á aðalfundi félagsins árið 2022 var samþykkt heimild stjórnar til að kaupa eigin hluti með framkvæmd endurkaupaáætlunar. Keyptir hafa verið 49,4 milljón eigin hlutir á árinu 2022. Þar af keypti félagið 27,1 millj. hluti á árinu á grundvelli heimildar sem samþykkt var á aðalfundi 2021. Tilgangur endurkaupanna er að lækka útgefið hlutafé. Hlutafé samkvæmt efnahagsreikningi eftir kaup eigin hluta er 1.178 millj. kr.
Stjórn mun leita eftir nýrri heimild aðalfundar fyrir kaupum á eigin hlutum með framkvæmd endurkaupaáætlunar á árinu 2023 líkt og undanfarin ár. Markmið með endurkaupaáætlun er líkt og áður að lækka hlutafé félagsins og stuðla að hagkvæmri fjámagnsskipan.
Sá góði árangur sem við náðum í rekstri á árinu 2022 liggur fyrst og fremst í þeim mannauði sem við hjá Sjóvá búum yfir og leggjum okkur fram um að hlúa að og ekki síður fyrirtækjamenningunni sem er með þeim hætti að eftir er tekið. Stjórn og framkvæmdastjórn félagsins vill þakka starfsmönnum félagsins fyrir frábæra frammistöðu og metnað til að gera vel í starfi og þjónustu við viðskiptavini. Við þökkum viðskiptavinum tryggð við félagið og samfylgdina á árinu 2022.