Inngangur
Sjóvá-Almennar tryggingar hf. (Sjóvá) er hlutafélag sem stofnað var 20. júní 2009. Félagið er vátryggingafélag og starfar samkvæmt lögum um hlutafélög nr. 2/1995, lögum um vátryggingastarfsemi nr. 100/2016 og lögum um vátryggingasamstæður nr. 60/2017.
Í samræmi við lög um endurskoðendur nr. 94/2019 eru vátryggingafélög skilgreind sem einingar tengdar almannahagsmunum og er sérstaklega kveðið á um hlutverk endurskoðunarnefnda í slíkum einingum í lögum um ársreikninga nr. 3/2006.
Sjóvá samstæðan starfar á vátryggingamarkaði og er alhliða vátryggingafélag með starfsemi á Íslandi á sviði skaða- og líftrygginga.
Starfsemi Sjóvár er fjölbreytt og þjónustan yfirgripsmikil en félagið býður tryggingavernd á öllum sviðum hér á landi. Um 8.300 fyrirtæki og um 79.800 einstaklingar voru í viðskiptum í lok árs 2021. Í árslok 2021 störfuðu 192 starfsmenn hjá Sjóvá í 185 stöðugildum. Sjóvá rekur 11 útibú um landið auk höfuðstöðva í Reykjavík. Þá hefur félagið á að skipa þéttu neti umboðs- og þjónustuaðila víðs vegar um landið og leggur kapp á að þjónusta félagsins sé öllum aðgengileg.
Fylgni við leiðbeiningar um stjórnarhætti
Félagið fylgir reglum um stjórnarhætti sem fjallað er um í lögum um ársreikninga, lögum um hlutafélög, lögum um vátryggingastarfsemi, reglugerð um gildistöku reglugerða ESB um vátryggingastarfsemi og vátryggingasamstæður nr. 940/2018 og leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja sem tóku gildi í júlí 2021 og gefin eru út af Viðskiptaráði Íslands, Nasdaq Iceland hf. og Samtökum atvinnulífsins.
Innra eftirlit og áhættustýring
Sjóvá lýtur eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (FME) og hefur komið á samhæfðri áhættustýringu sem nær til allra rekstrarþátta félagsins og sett sér áhættustefnu sem lýsir umgjörð áhættustýringar. Áhættustefnan tekur til allra áhættuþátta sem krafist er í lögum um vátryggingastarfsemi og reglugerð um vátryggingastarfsemi. Stefnan var síðast endurnýjuð 8. desember 2021.
Stjórnkerfi og skipulag félagsins eru skráð í gæðakerfi þess. Leiðbeiningar fyrir starfsmenn félagsins miða að því að hver og einn beri ábyrgð á gæðum vinnu sinnar, þjónustu félagsins og upplýsingaöryggi. Innra eftirlit er innbyggt í verklagsreglur félagsins og eru innri úttektir og áhættugreiningar framkvæmdar reglulega.
Félagið leggur áherslu á skýra verkaskiptingu og ábyrgð. Uppbygging Sjóvár á eigin starfsemi er í samræmi við þrjár varnarlínur innra eftirlits. Tekið hefur verið saman heildstætt yfirlit um innra eftirlit, áhættukort (e. Assurance map) sem gefur góðar upplýsingar um umfang eftirlits á öllum innri eftirlitsþáttum og gerir mögulegt að sannreyna niðurstöður og meta eftirlitið og umfang þess. Regluleg skýrslugjöf er varðar afkomu einstakra sviða starfseminnar er mikilvægur þáttur innra eftirlits. Mánaðarlegar skýrslur um rekstrarlega afkomu og fjárfestingar, ársfjórðungslegar skýrslur um áhættustýringu, eigið áhættu- og gjaldþolsmat sem framkvæmt er að lágmarki árlega, árleg skýrsla um gjaldþol og fjárhagslega stöðu og reglubundnar skýrslur til eftirlitsaðila sem og aðrar reglulegar úttektir miða að því að tryggja gagnsæi í starfseminni. Þær auðvelda félaginu einnig að uppgötva og leiðrétta hugsanlegar skekkjur, fylgjast með frávikum og sveiflum í starfseminni og gefa svigrúm til að bregðast við ef áhættuþættir eða breytingar í rekstrarumhverfi gefa tilefni til. Framkvæmdastjórn fundar hið minnsta mánaðarlega með áhættu- og öryggisnefnd, ársfjórðungslega er farið yfir stærstu áhættur og einstakir framkvæmdastjórar eiga að lágmarki árlegan fund með áhættu- og öryggisnefnd um áhættur þeirra ábyrgðarsviðs, fjalla um hvernig stýringu og eftirliti með áhættum er háttað og meta hvort það sé fullnægjandi.
Starfssvið áhættustjóra, regluvörslu, tryggingastærðfræðings og innri endurskoðanda teljast til lykilstarfssviða samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi og skulu þeir einstaklingar sem þeim sinna uppfylla sérstakar kröfur um hæfi og hæfni.
Tryggingastærðfræðingur félagsins hefur reglulegt eftirlit með því að iðgjaldaskrár endurspegli raunverulega vátryggingalega áhættu og séu í samræmi við afkomumarkmið. Tjónaskuld og endurtryggingavernd félagsins eru metnar með reglulegum hætti og þess gætt að þær séu í samræmi við þarfir félagsins og skuldbindingar þess. Auk þessa tekur tryggingastærðfræðingur saman árlega skýrslu fyrir stjórn félagsins um verkefni starfssviðsins, niðurstöður þeirra ásamt ábendingum.
Sjóvá hlaut árið 2014 vottun á upplýsingaöryggi samkvæmt ISO/IEC 27001 staðlinum sem staðfestir að rekstur upplýsingakerfa félagsins sé í samræmi við kröfur staðalsins og var vottunin endurnýjuð eftir úttekt í júní 2021.
Endurskoðun ársreiknings félagsins er í höndum KPMG ehf. sem kosið var á aðalfundi árið 2018 fyrir rekstrarárin 2018-2022. Innri endurskoðun er útvistað til Ernst & Young ehf.
Hlutverk, framtíðarsýn og vegvísar
Á árinu 2021 var áfram unnið að settum markmiðum og unnið að því að endurnýja stefnumótun og markmið félagsins til framtíðar. Þau byggja ofan á stefnu sem mörkuð var árið 2013 og á skilgreindu hlutverki, framtíðarsýn og vegvísum Sjóvár sem starfsfólk hefur að leiðarljósi í starfi sínu. Hlutverk Sjóvár er „Við tryggjum verðmætin í þínu lífi“. Framtíðarsýnin er „Sjóvá er tryggingafélag sem þér líður vel hjá“. Vegvísarnir eru leiðbeinandi í öllum ákvörðunum stjórnar og starfsfólks og leggja grunninn að þeirri framtíðarsýn sem unnið er að innan félagsins:
- Verum á undan
- Höfum það einfalt
- Segjum það eins og það er
- Verum til staðar
Reglur, stefnur og samfélagsleg ábyrgð
Stefna samstæðunnar um samfélagslega ábyrgð var endurnýjuð á árinu 2021 og hljóðar svo:
„Við hjá Sjóvá viljum starfa í sátt við samfélag og umhverfi. Með því að samþætta sjálfbærni og samfélagslega ábyrga starfsemi stuðlum við að arðsemi og vexti til framtíðar til hagsbóta fyrir samfélag, viðskiptavini, starfsfólk og hluthafa.
Sjóvá leggur sitt af mörkum til að stuðla að sjálfbærni og vernd umhverfisins með því að draga úr umhverfisáhrifum starfseminnar með markvissum aðgerðum og ábyrgri og meðvitaðri nýtingu auðlinda.
Sjóvá leggur áherslu á að veita framúrskarandi þjónustu og tryggja að þjónustan sé aðgengileg og í takt við þarfir og vilja viðskiptavina. Starfsánægja er mikilvæg forsenda ánægðra viðskiptavina. Félagið vill með góðum starfsaðstæðum tryggja að það sé ávallt samkeppnishæft og geti ráðið til sín framúrskarandi starfsfólk. Félagið hefur um árabil unnið markvisst að jafnréttismálum og lagt mikið upp úr því að vera í fararbroddi í málaflokknum. Stefna í jafnréttismálum byggir á mannréttindastefnu félagsins. Félagið hefur í heiðri grundvallarmannréttindi eins og þeim er lýst í alþjóðasamningum. Félagslegar áherslur miða að því að tryggja jöfn laun og tækifæri starfsfólks og fjölbreytni í samsetningu stjórnar, stjórnenda og starfsfólks. Á hverju ári eru skilgreindar markvissar aðgerðir sem byggja á mannréttindastefnu félagsins. Sjóvá leggur áherslu á að veita framúrskarandi þjónustu og að þjónustan sé aðgengileg og í takt við þarfir og vilja viðskiptavina.
Sjóvá fylgir í hvívetna þeim lögum og reglum sem um starfsemina gilda. Leitast er við að stjórnarhættir séu í samræmi við leiðbeiningar um stjórnarhætti og þær kröfur sem gerðar eru til félagsins sem er eftirlitsskyldur aðili og skráður í kauphöll. Sjóvá hefur skýra stefnu um að vinna gegn hvers konar spillingu, glæpsamlegri starfsemi og peningaþvætti í öllum viðskiptum félagsins.
Hagsældaráherslur Sjóvár snúa að hlutverki félagsins sem þjónustufyrirtækis í fremstu röð og trausts vinnuveitanda með heilbrigðan rekstur. Nýsköpun og sífelld þróun vöru og þjónustu Sjóvár stuðla að hagsæld og árangri félagsins. Sjóvá styður við samfélagið og félagslega grósku með forvarnastarfi, styrkjum og markvissu samstarfi.“
Sjóvá hefur verið aðili að Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð frá árinu 2014.
Sjóvá vinnur stöðugt að því að auka samþættingu áherslna Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun við markmið í starfseminni. Tengt er við fimm heimsmarkmiðanna þ.e. markmið 3 um heilsu og vellíðan, 5 um jafnrétti kynjanna, 8 um góða atvinnu og hagvöxt, 12 um ábyrga neyslu og 13 um aðgerðir í loftslagsmálum. Í samræmi við eðli rekstrarins hefur áhersla verið lögð á forvarnir, jafnréttismál, heilbrigðan rekstur og framþróun í samræmi við markmið 3, 5 og 8. Einnig er leitast við að tryggja ábyrga neyslu og stuðla að umhverfisvænum lausnum samkvæmt markmiði 12 og grípa til bráðra aðgerða gegn loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra í samræmi við markmið 13.
Áherslur Sjóvár í forvörnum tengjast markmiði 3 um heilsu og vellíðan þar sem sett eru fram markmið um helmings fækkun alvarlega slasaðra og dauðsfalla vegna umferðarslysa fyrir árið 2030 og markmiði 12 um ábyrga neyslu og framleiðslu um að draga verulega úr sóun með forvörnum, minnkun úrgangs, aukinni endurvinnslu og endurnýtingu. Hjá Sjóvá hefur um árabil verið lögð mikil áhersla á að vinna með viðskiptavinum að forvörnum, bæði einstaklingum og fyrirtækjum. Á árinu 2021 voru haldnir morgunfundir fyrir fyrirtæki í viðskiptum um forvarna- og öryggismál og ársfundur Eldvarnabandalagsins var haldinn á Teams. Nýtt hlaðvarp, Sjóvá spjallið, hóf göngu sína á árinu og greinar um forvarnir birtust reglulega á Vísi. SafeTravel appið var kynnt formlega með haustinu ásamt fleiri tæknilausnum. Sjóvá tók þátt í ráðstefnu Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Slysavarnir 2021 og var áhersla lögð meðal annars á forvarnaverkefni um börn í innkaupakerrum. Samstarfi við Miðstöð slysavarna barna var haldið áfram auk stuðnings við Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ og Landsbjörg. Sjóvá hefur um árabil verið aðalbakhjarl Landsbjargar og vinnur þétt með samtökunum að fjölbreyttum verkefnum á sviði forvarna, öryggismála og trygginga. Í tjónum og tjónavinnslu hefur verið leitast við að minnka sóun og stuðla að umhverfisvænum lausnum. Er það gert með því að nýta notaða hluti sem varahluti eftir föngum og gera við framrúður í stað þess að skipta þeim út ef þess er kostur. Leitast er við að minnka sóun sem felur í sér að viðskiptavinir hafa val um að fá bætur og nýta áfram minna skemmda og viðgerðarhæfa muni, fremur en að þeir fari til förgunar og nýir keyptir.
Sjóvá hefur um árabil lagt áherslu á að tryggja jöfn tækifæri og jafnrétti kynja til ábyrgðar og launa í samræmi við heimsmarkmið 5 og 8. Mannréttindastefna og árleg aðgerðaáætlun eru rammi utan um framkvæmd stefnunnar. Sjóvá hefur frá árinu 2014 haft jafnlaunavottun sem staðfestir að í félaginu er virkt jafnlaunakerfi og hefur launamunur alltaf mælst innan við 2%.
Félagið hefur sett sér umhverfisstefnu, fylgist með þróun umhverfisvísa og notkun auðlinda í rekstrinum og leitast er við að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Tæpur helmingur bíla í rekstri Sjóvár eru nú raf- og tvinnbílar og markmið hefur verið sett um að hækka hlutfall þeirra. Sjóvá hefur kolefnisjafnað eigin losun vegna aksturs og flugsamgangna í samstarfi við Kolvið frá árinu 2015. Sjóvá endurnýjaði á árinu samstarfs- og bakhjarlssamning við Slysavarnafélagið Landsbjörgu og veitti svo í lok ársins veglegan styrk til endurnýjunar björgunarskipaflota landsins. Er það í samræmi við heimsmarkmið 12 um að auka viðbragðsáætlanir og viðbúnað vegna vár af völdum náttúruhamfara. Sjóvá birtir nánari upplýsingar og mælikvarða um umhverfismál, samfélag og stjórnarhætti í samræmi við UFS (e. ESG) leiðbeiningar Nasdaq í ársskýrslu félagsins og á sjova.is. Sjóvá gekk á árinu til samstarfs við Klappir um sjálfbærnibókhald og rýni þess.
Samþykktir félagsins, starfsreglur stjórnar Sjóvár, starfsreglur endurskoðunarnefndar, starfsreglur tilnefningarnefndar, stefna um persónuvernd, stefna um samfélagslega ábyrgð og siðareglur Sjóvár eru aðgengilegar á sjova.is.
Stjórn
Stjórn skal samkvæmt samþykktum félagsins skipuð fimm aðalmönnum og tveimur varamönnum.
Aðalmenn í stjórn Sjóvár eru Björgólfur Jóhannsson, stjórnarformaður, Hildur Árnardóttir, varaformaður, Guðmundur Örn Gunnarsson, Ingi Jóhann Guðmundsson og Ingunn Agnes Kro. Varamenn í stjórn eru Erna Gísladóttir og Garðar Gíslason.
Stjórn Sjóvár telur að ákvæðum leiðbeininga um stjórnarhætti er varða óhæði stjórnarmanna sé fullnægt. Þau Björgólfur, Guðmundur Örn, Hildur og Ingunn eru óháð félaginu, daglegum stjórnendum þess og stórum hluthöfum. Ingi Jóhann er óháður félaginu og daglegum stjórnendum þess en hann telst háður stórum hluthafa samkvæmt leiðbeiningum um stjórnarhætti þar sem hann er eigandi og stjórnarmaður í félögum sem eiga beint og óbeint yfir 10% í Sjóvá.
Stjórn Sjóvár fundaði 18 sinnum á árinu 2021 og voru stjórnarfundir fullskipaðir stjórnarmönnum að tveimur fundum frátöldum þar sem einn stjórnarmaður forfallaðist.
Björgólfur Jóhannsson, stjórnarformaður, fæddur 28. ágúst 1955, til heimilis á Seltjarnarnesi. Björgólfur var kjörinn í stjórn Sjóvár 15. mars 2019 en steig til hliðar í nóvember 2019 tímabundið og var aftur kjörinn í stjórn 12. mars 2020 og tók þá við stjórnarformennsku.
Hildur Árnadóttir, varaformaður stjórnar, fædd 4. ágúst 1966, til heimilis í Kópavogi. Hildur hefur setið í stjórn Sjóvár frá 15. mars 2019. Hún var formaður stjórnar frá nóvember 2019 til mars 2020.
Guðmundur Örn Gunnarsson, fæddur 6. janúar 1963, til heimilis í Garðabæ. Guðmundur var fyrst kjörinn í stjórn Sjóvár 12. mars 2020 og hann hefur frá 28. apríl verið stjórnarformaður dótturfélagsins Sjóvá-Almennra líftrygginga hf.
Ingi Jóhann Guðmundsson, fæddur 12. janúar 1969, til heimilis í Garðabæ. Ingi Jóhann hefur setið í stjórn Sjóvár frá 28. júlí 2011.
Ingunn Agnes Kro, fædd 27. mars 1982, til heimilis í Reykjavík. Ingunn var fyrst kjörin í stjórn Sjóvár 12. mars 2020.
Varamenn í stjórn
Erna Gísladóttir, fædd 5. maí 1968, til heimilis á Seltjarnarnesi. Erna sat í stjórn Sjóvár frá 20. júní 2009 lengst af sem formaður stjórnar og síðar sem varamaður frá 15. mars 2019, en hún settist tímabundið aftur í stjórn 19. nóvember 2019 - 12. mars 2020.
Garðar Gíslason, fæddur 19. október 1966, til heimilis í Garðabæ. Hann hefur verið varamaður í stjórn Sjóvár frá 30. september 2011.
Stjórn Sjóvá-Almennra líftrygginga hf.
Stjórn Sjóvá-Almennra líftrygginga hf., dótturfélags Sjóvár, skipa Guðmundur Örn Gunnarsson, stjórnarformaður, Hafdís Böðvarsdóttir, viðskiptafræðingur og Heiðrún Lind Marteinsdóttir, lögmaður. Varamenn í stjórn eru Elín Þórunn Eiríksdóttir framkvæmdastjóri tjónasviðs og Grétar Dór Sigurðsson lögmaður. Guðmundur Örn, Hafdís, Heiðrún og Grétar teljast óháð Sjóvá lífi, daglegum stjórnendum og stórum hluthöfum. Stjórn Sjóvár lífs átti ellefu fundi á árinu 2021.
Endurskoðunarnefnd
Endurskoðunarnefnd starfar eftir starfsreglum á grundvelli IX. kafla A í lögum um ársreikninga nr. 3/2006. 108. gr. kveður á um skyldu eininga tengdum almannahagsmunum að starfrækja endurskoðunarnefnd. Endurskoðunarnefnd Sjóvár er skipuð þremur nefndarmönnum sem kosnir eru af stjórn félagsins. Hlutverk nefndarinnar er einkum að hafa eftirlit með vinnuferli við gerð reikningsskila, áhættustýringu og virkni innra eftirlits. Endurskoðunarnefndir Sjóvár og Sjóvár lífs skipa Helga Sigríður Böðvarsdóttir formaður, Friðrik S. Halldórsson og Hildur Árnadóttir sem jafnframt situr í stjórn Sjóvár. Nefndarmenn eru óháðir Sjóvá og Sjóvá lífi.
Endurskoðunarnefnd fundar að lágmarki ársfjórðungslega og oftar ef þurfa þykir. Nefndin átti sjö fundi árið 2021.
Starfskjaranefnd
Starfskjaranefnd markar starfskjarastefnu sem miðar að því að félagið sé ávallt samkeppnishæft og geti ráðið til sín framúrskarandi starfsfólk. Starfskjarastefnan nær yfir helstu atriði í starfs- og launakjörum forstjóra, stjórnenda og starfsmanna félagsins og skal fylgja mannréttindastefnu félagsins ásamt því að taka afstöðu til áhrifa launa á áhættutöku og -stýringu félagsins í samráði við endurskoðunarnefnd. Starfskjarastefnu skal endurskoða árlega og skal greiða atkvæði um hana á hverjum aðalfundi. Starfskjaranefnd er skipuð öllum stjórnarmönnum og átti nefndin tvo fundi á árinu.
Tilnefningarnefnd
Hlutverk tilnefningarnefndar er að tilnefna einstaklinga til stjórnarsetu fyrir aðalfund félagsins. Skal nefndin vinna að hagsmunum allra hluthafa og gæta þess að einstaklingar sem tilnefndir eru búi sem heild yfir nægilegri þekkingu og reynslu til að rækja hlutverk sitt. Nefndinni ber einnig að leggja mat á hvort frambjóðendur séu óháðir félaginu eða hluthöfum sem eiga 10% hlut í félaginu eða meira. Tilnefningarnefnd er skipuð þremur nefndarmönnum sem fyrst voru kjörnir á hluthafafundi 26. október 2018 og síðar endurkjörnir á aðalfundi 12. mars 2020. Nefndina skipa Katrín S. Óladóttir, formaður, Jón Birgir Guðmundsson og Vilborg Lofts. Nefndin átti 8 fundi á árinu 2021.
Skipurit samstæðu
Starfsemi félagsins er skipt upp í þrjú meginsvið, þ.e. fjármál og upplýsingatækni, sölu og ráðgjöf og tjón. Áhættustýring og gæðamál, persónuvernd, regluvarsla, fjárfestingar, endurtryggingar, mannauður, stefnumótun og viðskiptaþróun og trygginga- og tölfræðigreining heyra beint undir forstjóra. Allri daglegri starfsemi dótturfélagsins Sjóvár lífs er útvistað til móðurfélagsins. Framkvæmdastjórn skipa forstjóri og framkvæmdastjórar þriggja meginsviða félagsins.
Forstjóri
Hermann Björnsson hefur verið forstjóri Sjóvár frá október 2011 og framkvæmdastjóri dótturfélagsins, Sjóvá-Almennra líftrygginga hf. frá því í apríl 2021.
Framkvæmdastjórn
Framkvæmdastjórn félagsins er skipuð eftirtöldum starfsmönnum þar sem hver og einn framkvæmdastjóri ber ábyrgð á tilteknu sviði gagnvart forstjóra. Meðlimir framkvæmdastjórnar eiga hlutafé í félaginu eins og síðar greinir en engir kaupréttarsamningar hafa verið gerðir við stjórnendur félagsins.
Forstjóri Sjóvár er Hermann Björnsson, fæddur 15. febrúar 1963, til heimilis í Reykjavík. Hermann hefur verið forstjóri Sjóvár frá október 2011 og framkvæmdastjóri dótturfélagsins, Sjóvá-Almennra líftrygginga hf. frá því í apríl 2021.
Auður Daníelsdóttir, fædd 18. júní 1969, til heimilis á Seltjarnarnesi, er framkvæmdastjóri sölu og ráðgjafar. Hún var framkvæmdastjóri tjónasviðs Sjóvár frá 2007-2017 en var áður starfsmannastjóri frá 2002.
Elín Þórunn Eiríksdóttir, fædd 15. desember 1967, til heimilis í Hafnarfirði, er framkvæmdastjóri tjónaþjónustu. Hún var áður framkvæmdastjóri sölu og ráðgjafar Sjóvár frá 2012 og síðar viðskiptaþróunar og rekstrar og þróunar.
Sigríður Vala Halldórsdóttir, fædd 24. apríl 1983, til heimilis í Garðabæ, er framkvæmdastjóri fjármála og upplýsingatækni en hún tók við því starfi í apríl 2021.
Niðurlag
Stjórnarháttayfirlýsing þessi hefur verið sett saman af stjórn Sjóvár eftir bestu vitund. Henni er ætlað að veita greinargóðar upplýsingar um stjórnarhætti félagsins til viðskiptavina, hluthafa, eftirlitsaðila og annarra hlutaðeigandi.
Staðfest af stjórn Sjóvá-Almennra trygginga hf. 19. janúar 2022