Sala og ráðgjöf
Ánægja viðskiptavina áfram í forgrunni
Við hjá Sjóvá höfum um árabil unnið eftir skýrri framtíðarsýn um að veita framúrskarandi þjónustu til viðskiptavina, sama hvort um er að ræða einstaklinga eða fyrirtæki, við sölu trygginga, ráðgjöf eða þjónustu vegna tjóns. Við héldum samhent áfram á þessari braut á árinu 2021 og náðum mjög góðum árangri í þessum efnum, líkt og undanfarin ár.
Í byrjun árs 2022 hlaut félagið þá viðurkenningu að vera efst tryggingafélaga í Íslensku ánægjuvoginni, fimmta árið í röð. Þetta er mikil viðurkenning á þeirri þjónustu sem veitt er hjá Sjóvá og því hvernig starfsfólk nálgast sína vinnu. Viðurkenningin segir einnig til um sterka ímynd og stöðu félagsins á markaði. Við erum þakklát viðskiptavinum okkar og lítum á þessa viðurkenningu sem hvatningu til að halda áfram að veita stöðugt betri þjónustu.
Þjónusta eftir þörfum hvers og eins
Mikið er lagt upp úr því að þjónusta félagsins sé öllum viðskiptavinum aðgengileg, með þeim leiðum sem þeir sjálfir kjósa. Við höfum skrifstofur okkar opnar fyrir þá sem vilja koma til okkar, á sama tíma og stöðugt er unnið að þróun stafrænna lausna. Við erum til staðar í öllum landshlutum með 11 útibú og 9 þjónustuskrifstofur, auk höfuðstöðvanna í Reykjavík. Útibú okkar eru staðsett á Akranesi, í Borgarnesi, á Ísafirði, Dalvík, Akureyri, Húsavík, Egilsstöðum og Reyðarfirði, á Selfossi, í Reykjanesbæ og Vestmannaeyjum.
Á árinu 2021 tókst að hafa þjónustuskrifstofur félagsins að mestu leyti opnar, þrátt fyrir að ástandið væri á köflum erfitt. Allt gekk þetta upp vegna þess hversu samvinnufúsir viðskiptavinir okkar eru og starfsfólkið lausnamiðað. Aðstæður síðustu tveggja ára hafa að auki hvatt viðskiptavini til að eiga við okkur samskipti með rafrænum leiðum, sem hafa fyrir vikið aukist til muna. Sú þróun er afar ánægjuleg enda sýna mælingar okkar að það er ekki síðri ánægja með þá þjónustu sem við veitum með rafrænum hætti.
Hvort sem fólk leitar eftir ráðgjöf, vill kaupa tryggingar, tilkynna tjón eða annað, þá leggjum við áherslu á að svara öllum erindum hratt og örugglega. Fyrirspurnum sem berast okkur í gegnum netspjall hefur haldið áfram að fjölga og sömuleiðis nýta sífellt fleiri viðskiptavinir sér Mitt Sjóvá. Sá vefur tók miklum breytingum á árinu sem miðuðu allar að því að gera hann notendavænni og upplýsingar aðgengilegri. Markmið okkar er að einstaklingar og fyrirtæki í viðskiptum geti þjónustað sig í auknum mæli sjálf með rafrænum hætti, ef þau kjósa það. Að sama skapi var haldið áfram að þróa sjova.is með sömu áherslur að leiðarljósi, að veita aðgengilegar upplýsingar um tryggingar á mannamáli.
Ánægja skilar auknum viðskiptum
Markvissar aðgerðir síðustu ára til að bæta vátryggingarekstur félagsins héldu áfram að skila árangri og gekk reksturinn afar vel á árinu. Iðgjaldavöxtur ársins nam 15% og er hann drifinn áfram af góðum vexti bæði á einstaklings- og fyrirtækjamarkaði. Það var sérstaklega ánægjulegt að sjá aukningu iðgjalda á fyrirtækjamarkaði á árinu 2021 eftir samdrátt á fyrra ári og þá sérstaklega hjá fyrirtækjum innan ferðaþjónustunnar. Áfram var áhersla lögð á að vinna náið með þeim fyrirtækjum sem fundu fyrir neikvæðum afleiðingum heimsfaraldursins og samkomutakmarkana, en sem betur fer voru þau ólíkt færri en árið á undan.
Á einstaklingsmarkaði gekk einstaklega vel og er ljóst að sú framúrskarandi þjónusta sem við leggjum okkur fram við að veita og frumkvæði starfsfólks í samskiptum við viðskiptavini skilaði sér. Á árinu fengu 30 þúsund tjónlausir viðskiptavinir okkar samtals 723 milljónir í Stofnendurgreiðslu. Var það 27. árið í röð sem við endurgreiðum tjónlausum viðskiptavinum í Stofni og erum við eftir sem áður eina tryggingafélagið á íslenskum markaði sem gerir það. Viðskiptavinir okkar í Stofni hafa aldrei verið fleiri, en á haustmánuðum síðasta árs voru þeir orðnir rúmlega 40 þúsund talsins.
Gerum tryggingar betri
Haldið var áfram að þróa vörur félagsins með þarfir viðskiptavina að leiðarljósi. Í aprílmánuði var Sjóvá fyrst tryggingafélaga á Íslandi til að gera mikilvægar breytingar á kaskótryggingum ökutækja sem fela meðal annars í sér að nú eru bætt tjón á undirvögnum sem verða ef bíll rekst niður í akstri, ekið er í holu eða eitthvað hrekkur upp undir hann, annars staðar en við akstur á fjallvegum, utan vega eða þegar ekið er yfir óbrúaðar ár.
Fyrir breytingar voru slík tjón alfarið undanskilin í kaskótryggingum á íslenskum markaði og gat það komið sér illa, sérstaklega fyrir eigendur raf- og tengitvinnbíla en rafhlöður þeirra eru gjarnan lægsti punktur bílsins og kostnaður við viðgerðir eða útskipti á þeim getur skipt milljónum króna. Breytingin kemur sér líka vel fyrir eigendur bíla með sprengihreyflum því nú eru líka bættar skemmdir sem kunna að verða á vél og gírkassa við áðurnefndar aðstæður.
Með þessari útvíkkun á kaskótryggingunni vakti ekki síst fyrir okkur að aðlagast breyttri samsetningu bílaflotans hér á landi og mæltist hún afar vel fyrir hjá viðskiptavinum okkar sem og öðrum, s.s. í hópi rafbílaeigenda. Við erum stolt af því að hafa leitt þessa góðu breytingu til hagsbóta fyrir viðskiptavini okkar og þannig stuðlað að því að gera umhverfisvænni bifreiðar að enn aðgengilegri valkosti.