Afkoma ársins 2021 af vátryggingarekstri fyrir skatta nam 2.517 m.kr. sem er töluverð aukning frá fyrra ári, en samsett hlutfall var 90,9% á árinu samanborið við 92,0% árið áður. Iðgjaldavöxtur nam 15,0% á árinu í heild og voru 23.953 m.kr. samanborið við 20.831 m.kr. árið áður og vöxtur eigin iðgjalda var 15,7%. Árin eru ekki samanburðarhæf að fullu þar sem maí-gjalddagi í ökutækjatryggingum var felldur niður á árinu 2020 að upphæð 650 m.kr. Eigin tjón ársins hækkuðu á sama tíma um 14,6% og voru 16.307 m.kr. en 14.223 m.kr. árið 2020. Tjónahlutfall ársins var 69,1% samanborið við 70,7% árið á undan.
Reksturinn einkennist af góðum iðgjaldavexti umfram vöxt eigin tjóna og er það í samræmi við stefnu Sjóvár um viðunandi arðsemi af vátryggingarekstrinum. Undanfarna 23 fjórðunga eða allt frá öðrum ársfjórðungi 2016 hefur vátryggingareksturinn skilað jákvæðri afkomu. Sá góði árangur byggir á aðgerðum sem snúa að iðgjaldasetningu, áhættumati, forvörnum og iðgjaldavexti í formi aukinnar sölu, sem stjórnendur hafa lagt ríka áherslu á allt frá því að félagið var skráð á hlutabréfamarkað.
Iðgjaldavöxturinn var drifinn af góðum vexti bæði á einstaklings- og fyrirtækjamarkaði og í nær öllum vátryggingaflokkum. Rekstrarniðurstaðan telst því góð og er ánægjulegt að vöxtur iðgjalda á fyrirtækjamarkaði sé nú að taka við sér eftir samdrátt vegna áhrifa heimsfaraldurs. Áfram var unnið þétt með fyrirtækjunum sem fundu fyrir neikvæðum afleiðingum faraldursins með því að aðlaga vátryggingavernd og finna með þeim lausnir á áskorunum þeirra.
Á einstaklingsmarkaði hefur gengið einstaklega vel og er ljóst að framúrskarandi þjónusta á landsvísu og áhersla á frumkvæði í samskiptum við viðskiptavini eru enn að skila okkur ánægðari viðskiptavinum. Á árinu fengu svo 30 þúsund tjónlausir viðskiptavinir 723 milljónir króna í formi Stofnendurgreiðslu, sem voru greiddar út 27. árið í röð. Fleiri viðskiptavinir hafa verið að bætast í hópinn auk þess sem tryggð viðskiptavina er mikil. Í því felst mikið traust í garð félagsins sem við erum þakklát fyrir og við leggjum okkur fram um að standa vel undir þeim væntingum sem gerðar eru til okkar.
Fjárfestingatekjur Sjóvár voru 8.384 m.kr. á árinu en voru 5.274 m.kr. árið áður sem þó var óvenju gott. Ávöxtun fjárfestingareigna í stýringu félagsins var 18,5% á árinu en var 13,2% árið áður. Ávöxtunin er að nær öllu leyti vegna góðrar afkomu af skráðum og óskráðum hlutabréfum. Ávöxtun skráðra hlutabréfa var 52,8% á árinu og voru tekjur af þeim 5.541 m.kr. Ávöxtun óskráðra hlutabréfa var 63,2% og tekjur af þeim 1.419 m.kr. Það var sérstaklega ánægjulegt að sjá fjárfestingar Sjóvár í nýsköpun eins og Controlant og Kerecis ná miklum árangri á árinu bæði í uppbyggingu fjölbreytilegra atvinnulífs á Íslandi, því að veita viðskiptavinum sínum nýstárlega en mikilvæga þjónustu og skila okkur góðum ávinningi. Einnig var afkoman góð af rótgrónum en óskráðum fyrirtækjum eins og Ölgerðinni og Bláa lóninu.
Við nýttum þær sérstöku aðstæður sem uppi voru á árinu til að horfa inn á við, skoða hvað má bæta og huga að stefnu og langtímamarkmiðum starfseminnar. Rekstrarumhverfið tekur sífelldum breytingum þó tryggingarekstur sé á vissan hátt hefðbundinn þarf þjónustan alltaf að taka mið af þörfum, væntingum og vilja viðskiptavina. Þar er alltaf hægt að gera betur. Líkt og áður höfum við á okkar forsendum haldið utan um stefnumótunarvinnuna, þær áherslur og leiðir sem við veljum að fylgja. Stefnumiðin hafa nú verið endurnýjuð, nýjar og metnaðarfullar áherslur og markmið verið sett fram, enda þótt allir byggi þessir þættir áfram á sama grunni og áður. Áhersla okkar er sem fyrr á ánægju viðskiptavinina, að viðskiptavinir Sjóvá séu þeir ánægðustu á íslenskum tryggingamarkaði. Það er okkar trú að ánægt starfsfólk sé forsenda þess að vera þjónustufyrirtæki í fremstu röð og leggjum við einnig ríka áherslu á að hlúa að mannauði okkar og góðri fyrirtækjamenningu. Við viljum mæta viðskiptavinum á þeim vettvangi sem þeir vilja eiga við okkur samskipti. Við teljum mikilvægt að styrkja stafrænar þjónustulausnir en leggjum áfram áherslu á mannlega mýkt þar sem við á. Við viljum vera til staðar fyrir viðskiptavini og vinnum að því öllum árum að sinna því hlutverki okkar eins og best verður á kosið. Áherslan á að veita framúrskarandi þjónustu felst í því að tryggja að þjónustan sé aðgengileg og í takt við þarfir og óskir viðskiptavina auk þess sem við teljum að frumkvæði að samskiptum og fagleg ráðgjöf styðji enn betur við þá vegferð.
Sjóvá mældist efst tryggingafélaga í Íslensku ánægjuvoginni 2021, fimmta árið í röð, en ánægjuvogin mælir hversu ánægðir viðskiptavinir eru með þjónustu fyrirtækja í ýmsum greinum.
Við erum afar þakklát fyrir að okkar viðskiptavinir séu ánægðari. Það að veita framúrskarandi þjónustu hefur um árabil verið okkar leiðarljós í allri þjónustu, hvort sem þjónustan er veitt með stafrænum lausnum og leiðum eða með beinum samskiptum í útibúum okkar um land allt. Við gleðjumst því innilega að sjá þessar áherslur okkar skila sér í ánægju viðskiptavina, fimmta árið í röð. Við erum þó sem fyrr segir hvergi nærri hætt, enda alltaf tækifæri til að gera betur í þjónustu og það er það sem við ætlum okkur áfram að gera.
Hluthafar voru í lok ársins 1295 og hafði þeim fjölgað úr 934 eða um 361 frá síðustu áramótum. Við gleðjumst yfir þessari fjölgun og bjóðum nýja hluthafa velkomna. Hluthafahópurinn er breiður og öflugur og samanstendur af lífeyrissjóðum sem eiga 51% hlutafjár, einstaklingum og fyrirtækjum með 36% og verðbréfasjóðum og fjármálafyrirtækum sem eiga rúmlega 9% hluta.
Í júlí var tilkynnt um að óskað hefði verið eftir heimild Fjármálaeftirlits SÍ til lækkunar hlutafjár fyrir 2.500 m.kr. Í október samþykkti hluthafafundur hlutafjárlækkun sem ætlað var að færa fjármagnsskipan að markmiðum stjórnar um gjaldþol. Stjórn hefur sett þau viðmið að gjaldþolshlutfallið sé á bilinu 1,4-1,7 en það var í lok júní 1,79 og helgaðist meðal annars af því að ekki hafði verið greiddur arður til hluthafa á árinu 2020 í ljósi tilmæla eftirlitsaðila á þeim tíma. Arðgreiðslustefna félagsins hefur haldist óbreytt og miðar við að greiða að minnsta kosti 50% af hagnaði hvers árs eftir skatta út í formi arðs að því gefnu að félagið haldist áfram fjárhagslega sterkt, meðal annars með tilliti til gjaldþols. Hlutafjárlækkunin kom til framkvæmda í nóvember og var henni ráðstafað til hluthafa.
Áherslur Sjóvár í forvörnum tengjast eðli starfseminnar með beinum hætti og eru markmið um heilsu og vellíðan og umhverfissjónarmið í forgrunni og samhljómi við þau heimsmarkmið sem Sjóvá leggur áherslu á. Fjölbreytt og öflugt forvarnastarf miðar að því að koma í veg fyrir hvers kyns tjón, hjá einstaklingum sem og hjá fyrirtækjum. Forvarnaverkefni ársins 2021 voru líkt og áður afar fjölbreytt en byggja í grunninn öll á samstarfi og miðlun upplýsinga.
Samstarf Sjóvár og Landsbjargar að forvörnum hefur verið farsælt í gegn um árin enda byggir það á breiðum grunni og forvarnir, öryggismál og slysvarnir sameiginleg baráttumál beggja félaga. Samstarfssamningur Sjóvár og Landsbjargar var endurnýjaður á árinu til næstu fimm ára. Í samstarfi við Slysavarnafélagið Landsbjörgu og Stokk var á árinu sett í loftið snjallforrit eða app undir merkjum SafeTravel. Okkar aðkoma var að kosta alla vinnu við gerð appsins sem er ætlað að gera fólki á ferð um landið kleift að fylgjast með aðstæðum á vegum á þeirri leið sem fyrirhuguð er. Appið lætur vita ef færð á vegum spillist á meðan á ferðalaginu stendur og getur það bæði nýst íslenskum sem erlendum ökumönnum. Okkar vonir standa til að þetta geti komið í veg fyrir að farið sé út í aðstæður sem reynast vera hættulegar. Um er að ræða nytsamlega og árangursríka leið til að aðstoða ferðamenn á leið um landið auk þess forvarnargildis sem þetta felur í sér.
Í lok ársins var tekin ákvörðun um stærsta styrk sem Sjóvá hefur nokkurn tímann veitt til einstaks verkefnis, eða 142,5 milljónir króna. Tilefnið var enda risavaxið, endurnýjun stórs hluta björgunarskipaflota Landsbjargar sem hefur afar mikilvægu hlutverki að gegna allt í kring um landið. Landsbjörg hafði þegar tryggt hluta þess fjár sem þurfti til að hefja smíði þriggja fyrstu skipanna frá ríkinu en styrkurinn frá Sjóvá gerði þeim mögulegt að hefja smíði þeirra. Spennandi verður að fylgjast með framgangi verkefnisins á næstu árum en fyrsta skipið verður afhent í sumar. Við hjá Sjóvá erum að vonum afar stolt af aðkomu okkar að því og glöð að geta lagt þessari mikilvægu starfsemi Slyasvarnarfélagsins Landsbjargar lið með þessum hætti.
Við áttum einnig gott samstarf við fyrirtæki í viðskiptum um forvarnir og öryggismenningu og haldnir voru fjölbreyttir morgunfundir fyrir fyrirtæki, m.a. fyrir aðila ferðaþjónustunnar um öryggismál og mikilvægi viðhalds meðan starfsemi þeirra lá niðri. Helstu áskoranir okkar og tækifæri til framtíðar felast í að vinna þétt í öflugu samstarfi með viðskiptavinum okkar í þeim tilgangi að fækka tjónum.
Í þeirri stefnumótunarvinnu sem fram fór á árinu og áður var nefnd var meðal annars litið til stefnu félagsins í sjálfbærni og samfélagslegri ábyrgð. Sjóvá vill leggja sitt af mörkum til að stuðla að sjálfbærni og vernd umhverfisins með því að draga úr umhverfisáhrifum starfseminnar og var í stefnumótunarvinnunni litið til Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna með tilliti til þess hvar félagið gæti í sinni starfsemi haft mest áhrif til góðs. Stefnan á þessu sviði var endurskoðuð og mörg spennandi verkefni hafa hlotið forgang vegna áhrifa þeirra á umhverfi og samfélag enda ætlar félagið að ná enn betri árangri á þessum sviðum. Tækifæri til að bæta hafa oft í för með sér fleiri en einn ávinning. Helstu verkefni sem til komu til framkvæmda á árinu voru meðal annars áframhaldandi innleiðing Innsýnar sem er rafrænn fjarskoðunarbúnaður fyrir fasteigna- og tjónaskoðanir sem aukið getur hraða afgreiðslu til muna og stutt viðskiptavini við að minnka skaða með snörum viðbrögðum og ráðgjöf í gegn um forritið. Áætlað er að á árinu hafi notkun Innsýnar komið í veg fyrir um 18.000 km akstur í yfir 1000 tjónaskoðunum sem framkvæmdar voru. Innsýn styður þannig bæði við betri og hraðari þjónustu auk þess sem hún hjálpar okkur að minnka kolefnisspor starfseminnar.
Á árinu var kynnt til sögunnar uppfærsla á kaskótryggingu, þar sem undirvögnum var bætt inn í vátryggingaverndina. Þetta var sérstaklega mikilvæg viðbót fyrir eigendur rafbíla, en tjón á undirvögnum þeirra geta verið afar kostnaðarsöm ef rafhlaðan verður fyrir skemmdum. Mikilvægt var að koma til móts við þá öru þróun sem er að eiga sér stað á ökutækjamarkaði og stíga ákveðið inn í framtíðina enda er óhætt að segja að viðtökurnar hafi verið mjög góðar.
Við munum vinna áfram að markvissum aðgerðum og stuðla að ábyrgri og meðvitaðri nýtingu auðlinda í okkar rekstri. Það er mikilvægt fyrir Sjóvá að leggja sitt af mörkum í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að minni losun víðar í virðiskeðjunni með forvörnum, fræðslu og ábyrgum lausnum í vöruframboði og þjónustu. Þarna verðum við öll að leggjast á árar og leggja fram sjálfbærari lausnir.
Í ár fengum við í fyrsta sinn ítarlegt áhættumat á umhverfisþáttum, félagsþáttum og stjórnarháttum frá Reitun. Niðurstaðan var afar ánægjuleg en Sjóvá mældist fyrir ofan meðaltal á UFS heildareinkunn í samanburði við innlenda útgefendur verðbréfa sem hafa farið í gegnum greiningu hjá Reitun. Félagið stóð einkum vel í flokki félagsþátta sem snúa að mælikvörðum á jafnrétti og velferð starfsfólks í samanburði við markaðinn og hlaut hæstu einkunn gefna fyrir flokkinn. Við viljum gera enn betur þarna þó við gleðjumst yfir jákvæðri niðurstöðu þessarar úttektar.
Árið hefur verið okkur gott og það er auðvitað helst því að þakka hve vel starfsfólk okkar hefur tekist á við áskoranir ársins og mætt þeim af mikilli jákvæðni og vilja til að halda uppi þjónustustiginu. Starfsfólki þökkum við frábæra frammistöðu og metnað til að gera vel í starfi og þjónustu við okkar góðu viðskiptavini, sem við þökkum einnig fyrir viðskiptin á árinu og tryggð þeirra við Sjóvá.