Það getur verið mikið áfall að lenda í tjóni og stundum kemur upp ágreiningur. Þess vegna er hægt að vísa málum til nefnda skipaða sérfræðingum.
Tjónanefnd vátryggingarfélaganna
Nefndin tekur fyrir ágreiningsmál um sök eða sakarskiptingu vegna árekstra bifreiða. Nefndin starfar á vegum Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF) og í henni sitja fulltrúar frá öllum tryggingafélögum.
Sjóvá sér um að leggja mál fyrir tjónanefndina ef viðskiptavinir óska eftir því. Nefndin fundar vikulega og tekur málsmeðferð að jafnaði eina til tvær vikur. Meðferð málsins er ókeypis fyrir viðskiptavini og niðurstaða nefndarinnar er ekki bindandi fyrir þá.
Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum
Nefndin er viðurkenndur úrskurðaraðili á sviði neytendamála sem starfrækt er í samstarfi Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF) og Neytendasamtakanna. Flest ágreiningsmál milli neytenda og tryggingafélaga heyra undir nefndina, hvort sem þau varða sölu eða dreifingu trygginga eða tjónaafgreiðslu.
Nefndin fjallar um bótaskyldu vegna hvers kyns tjóna, sök og sakarskiptingu en einnig um ágreining varðandi bótafjárhæðir milli neytenda og tryggingafélags að fengnu samþykki þess. Vátryggðum einstaklingi og rétthafa bóta (ekki tjónþola vegna ábyrgðartryggingar) er þó heimilt án samþykkis að skjóta til nefndarinnar ágreiningi um fjárhæðir á bilinu 25.000 kr. til 5.000.000 kr. vegna trygginga sem ekki tengjast atvinnurekstri hans. Heimild þessi nær til tjónsatvika sem eiga sér stað eftir 1. janúar 2022.
Nefndin er skipuð þremur löglærðum einstaklingum sem tilnefndir eru af Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Neytendasamtökunum og Samtökum fjármálafyrirtækja. Málsmeðferð tekur að jafnaði 1-2 mánuði frá því að málskot er sent nefndinni.
Úrskurðir nefndarinnar er ekki bindandi fyrir viðskiptavini en binda hins vegar tryggingafélagið nema það tilkynni viðskiptavininum og nefndinni innan fjögurra vikna að það muni ekki hlíta úrskurðinum.
Sá sem skýtur máli sínu til úrskurðarnefndar þarf að fylla út málskotseyðublað og senda það til nefndarinnar ásamt rökstuðningi og málsgögnum ásamt því að greiða málskotsgjald. Gjaldið fæst endurgreitt ef málið fellur viðskiptavini í vil að hluta eða öllu leyti.
Málskotsgjald er:
• 10.000 krónur fyrir einstakling utan atvinnurekstrar
• 25.000 krónur fyrir einstakling í atvinnurekstri
• 50.000 krónur fyrir lögaðila
Nefndin hefur aðsetur að Guðrúnartúni 1 í sama húsi og Neytendasamtökin. Frekari upplýsingar má sjá á heimasíðu nefndarinnar www.nefndir.is/vatrygging
Dómstólar
Ávallt er heimilt að skjóta ágreiningsmálum til dómstóla óháð því hvort málið hafi áður verið lagt fyrir úrskurðarnefnd. Þar sem dómsmál eru bæði kostnaðarsöm og tímafrek bendum við viðskiptavinum á að kynna sér réttaraðstoðartryggingar og möguleika á gjafsókn. Mál gegn Sjóvá skal öllu jöfnu höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.