Öryggismál eru ekki fyrirhöfn
Fyrirtækið Tandur, framleiðandi og söluaðili á hreinlætisvörum, er leiðandi á sínu sviði í forvörnum og öryggi. Þau sögðu okkur frá því hvernig þau haga sínum öryggismálum.
Hvers vegna leggið þið svona mikla áherslu á öryggismál hjá ykkur?
„Samkvæmt lögum þá ber atvinnurekandi ábyrgð á að koma á vinnuverndarstarfi sem tekur til fyrirtækisins í heild og allra vinnuaðstæðna sem geta haft áhrif á öryggi og heilsu starfsmanna. Að vinnustaðurinn sé þannig að þar sé gætt fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar. Aukin vitund um öryggismál er allra hagur, hefur jákvæð áhrif á öryggi og heilsu starfsmanna, traust viðskiptavina, orðspor og ímynd fyrirtækisins.“
Hvernig er fyrirkomulagið hjá ykkur er snýr að eldvörnum?
„Í lok hvers vinnudags þarf síðasti starfsmaður sem yfirgefur húsnæðið að yfirfara ákveðinn minnislista og kvitta fyrir inni í WorkPlace kerfinu okkar. Með þessu fyrirkomulagi næst sýnilegt aðhald allra starfsmanna og stjórnenda. Þar er m.a. farið yfir eftirfarandi atriði:
- Yfirfara frágang við lyftarahleðslur.
- Loka brunahurðum.
- Yfirfara öll tæki sem eru í hleðslu.
- Læsa og loka öllum útidyrahurðum/gluggum og að hurðir milli skrifstofu og vöruhúss séu lokaðar.
- Taka blaðagám inn.
- Athuga hvort einhver bretti séu fyrir utan, setja þau þá inn.
- Setja á öryggiskerfi.
- Mánaðarlegt eldvarnareftirlit (gátlisti) sinnt af öryggisfulltrúum.
- Árleg rýmingaræfing.“
Hver finnst ykkur vera mesti ávinningurinn af eldvarnaeftirliti?
„Aukið öryggi fyrir starfsfólk. Tryggja að réttur viðbúnaður og viðbrögð séu til staðar til að hindra að eldur kvikni. En ef það gerist að hann valdi sem minnstu tjóni á fólki, byggingum og starfsemi.“
Hafið þið sótt ykkur upplýsingar utan frá um hvernig sé best að hafa eldvörnum eða er þetta allt komið frá ykkur?
„Þetta er að hluta til komið frá okkur en einnig höfum við sótt okkur upplýsingar frá utanaðkomandi sérfræðingum m.a. okkar rafvirkjameistara, fulltrúum frá Slökkviliði og Vinnueftirliti.“
Hvað breyttist við að taka upp eigið eldvarnareftirlit?
„Starfsfólk er almennt meðvitaðra um sitt eigið starfsumhverfi og hvar betur má gera. Það er áríðandi að virkja sem flesta starfsmenn í þessari vinnu.“
Hvernig skráið þið hjá ykkur eftirlitið, þegar því er sinnt? Er mikil vinna fólgin í því?
„Öryggisvörður og öryggistrúnaðarmaður sinna ákveðnu eftirliti reglulega og skrá niður hjá sér athugasemdir ef einhverjir eru og gera tillögu að úrbótum. Vinnan í kringum þetta er óveruleg en ávinningur mikill.
Einnig erum við í samstarfi við Securitas með eldvarnir. Þeir koma árlega og taka út brunakerfi, slökkvitæki o.fl. og gera úrbætur ef þurfa þykir.“
Hvernig metið þið kostnaðinn af því að halda úti eigin eldvarnareftirliti?
„Heiðarlega þá höfum við ekki tekið saman kostnað við þetta eftirlit og sjáum enga ástæðu til þess þar sem að við teljum þetta eftirlit eitt af grunnstoðum rekstrarins.“
Eru öryggismál mikil fyrirhöfn?
„Alls ekki, þetta er bara hluti af því starfi sem öryggisfulltrúar okkar sinna.“
Hvernig völduð þið þann sem sinnir eldvarnareftirliti? Er eitthvað sérstakt sem þið höfðuð í huga?
„Öryggistrúnaðarmaður og öryggisvörður eru þeir aðilar sem sinna eldvarnareftirliti ásamt öðru vinnuverndarstarfi innan fyrirtækisins. Öryggistrúnaðarmaður er aðili sem er kosinn af samstarfsmönnum og öryggisvörður tilnefndur af atvinnurekanda.“