Spurt og svarað
Hvað er kaskótrygging?
Kaskótryggingu á ökutækjum er ætlað að bæta skemmdir á eigin ökutæki ef það kemur til tjóns sem ekki fæst bætt úr öðrum tryggingum. Kaskótrygging er ekki skyldutrygging og velur fólk því sjálft hvort það vill kaupa hana fyrir ökutæki eða ekki.
Hvernig kaupi ég kaskótryggingu?
Þegar þú kaupir nýtt ökutæki getur bílasali eða bílaumboð sent okkur beiðni um kaskótryggingu um leið og þú gengur frá kaupunum. Ef þú kaupir notað ökutækið þá þarftu að koma með það í skoðun á næsta afgreiðslustað okkar og við skoðum hvort við getum Kaskótryggt ökutækið.
Gildir kaskótryggingin ef bíllinn minn bilar?
Kaskótrygging bætir ekki bilanir í bílum. Þetta á við um allar bilanir hvort sem það er vélarbilun, skemmdir sem verða þegar vökvakerfi frjósa eða vegna rangrar notkunar smurefna, eldsneytis eða rafhleðslubúnaðar.
Hver eru algengustu tjónin sem bætt eru úr kaskótryggingum ökutækja?
Algengustu tjónin sem bætt eru úr kaskótryggingu er þegar tveir eða fleiri bílar lenda í árekstri og þeir sem eru í órétti sækja bætur í kaskótrygginguna sína. Einnig er algengt að ekið sé á mannvirki eins og ljósastaura, grindverk og kyrrstæða bíla.
Bætir tryggingin tjón sem verður á rafhlöðum rafbíla?
Frá og með 23. apríl 2021 bætir kaskótrygging ökutækja tjón sem verður á undirvögnum, s.s. rafhlöðum rafbíla, ef bíllinn rekst niður í akstri, ekið er í holu eða eitthvað hrekkur upp undir hann, annars staðar en við akstur á fjallvegum, slóðum eða utan vega eða þegar ekið er yfir óbrúaðar ár, vötn eða læki. Við erum ánægð að geta boðið upp á kaskótryggingu sem bætir þessi tjón, fyrst tryggingafélaga á Íslandi.
Hvað er eigin áhætta og hversu há á hún að vera?
Eigin áhætta, stundum kölluð sjálfsáhætta, er fjárhæð sem þú velur. Því hærri eigin áhættu sem þú velur, því lægra er verðið á tryggingunni, eða iðgjaldið. Komi til tjóns greiðir þú eigin áhættuna og tryggingin greiðir þann kostnað sem er umfram upphæð eigin áhættunnar. Algengar upphæðir í eigin áhættu í kaskó er u.þ.b. 100 - 200.000 kr.
Er eigin áhættan alltaf sú sama?
Já.
Hvar gildir tryggingin?
Tryggingin gildir á Íslandi og á ferðalagi í Evrópu í allt að 90 daga. Hún gildir einnig í nauðsynlegum flutningi milli landa, sé um árstryggingu að ræða, eins og algengast er. Athugið að þjófnaðartryggingin gildir aðeins á Íslandi.
Hvað ef ég keyri án þess að hafa próf eða undir áhrifum, gildir kaskótryggingin?
Í slíkum tilfellum og ef um kaskótjón verður, getur bótaskylda fallið niður og þar með ber ökumaður sjálfur ábyrgð á tjóninu og þeim kostnaði sem af því leiðir.
Gildir kaskótrygging erlendis?
Kaskótryggingin gildir í akstri innan Evrópu í allt að 90 daga. Ef dvölin er lengri þarf að kaupa viðbót við kaskótrygginguna því annars gildir hún ekki. Athugið að þjófnaðartryggingin gildir aðeins á Íslandi.
Gildir kaskótryggingin allstaðar, sama hvar ég keyri?
Kaskótryggingin okkar er afar víðtæk. Hún nær yfir allan akstur þar með talið tjón, önnur en tjón á undirvagni, sem verða ef ekið er um tún eða engi, á snjó og ís, yfir óbrúaðar ár eða læki, um fjörur, vegatroðninga og/eða aðrar vegleysur. Þá bætir kaskótrygging ekki tjón vegna vatns sem flæðir inn í véla-, farþega- eða farangursrými eða ef ökumaður hefur sýnt af sér stórkostlegt gáleysi.
Fyrir hvernig ökutæki get ég bætt við Afnotamissisvernd?
Afnotamissisvernd er ætluð smærri bílum sem notaðir eru í atvinnurekstri. Þú getur því bætt Afnotamissisvernd við kaskótryggingu fyrir hefðbundna fólksbíla og litla og stóra sendibíla. Afnotamissisvernd er ekki í boði fyrir vörubíla, leigubíla, bílaleigubíla eða ökutæki í neyðarakstri.
Fæ ég alltaf sambærilegt ökutæki í skiptum, ef ég er með Afnotamissisvernd?
Við munum leggja okkur fram um að finna sambærilegt ökutæki fyrir þig á meðan bíllinn þinn er í viðgerð, en við getum ekki lofað að það gangi alltaf upp. Í þeim tilvikum sem ekki er hægt að finna sambærilegt ökutæki greiðum við út bætur sem nema 10 þúsund krónum á dag, í hámarki 7 daga.
Kynntu þér skilmála tryggingarinnar.