Hvernig tryggi ég mig fyrir tjóni sem ég get valdið öðrum í keppni?
Keppni á skráðum ökutækjum
Til að keppandi sé tryggður fyrir tjóni sem hann getur valdið öðrum í keppni þarf að kaupa sérstakan keppnisviðauka til viðbótar við ábyrgðartrygginguna. Þetta gildir jafnt um bíla, mótorhjól, fjórhjól og vélsleða. Með keppnisviðaukanum virkjast ábyrgðatrygging í keppnum.
Athugið að keppnisviðaukinn felur ekki í sér slysatryggingu ökumanns og eiganda, nema þegar um er að ræða keppni skráningarskyldra bifreiða, og hann nær ekki til kaskó- og bílrúðutrygginga. Þeir sem keppa á bifhjólum, fjórhjólum og vélsleðum þurfa því að slysatryggja sig sérstaklega.
Keppnisviðauki endurnýjast með tryggingu ökutækisins nema honum sé sagt upp sérstaklega. Þegar viðaukinn hefur verið keyptur kemur fram á tryggingaskírteininu að ábyrgðartrygging ökutæksins gildi í keppni. Hægt er að skoða tryggingaskírteini á Mitt Sjóvá.
Keppni á óskráðum ökutækjum
Óskráð ökutæki, til dæmis torfærugrindur, eru ekki með lögboðnar ökutækjatryggingar. Til að vera tryggð/ur fyrir tjóni sem óskráðu ökutækin geta valdið öðrum í keppni á þarf að kaupa sérstaka ábyrgðartryggingu sem annað hvort er tekin fyrir staka keppni eða allt keppnistímabilið.
Athugið að engin slysatrygging er innifalin í ábyrgðartryggingunni og því þurfa keppendur að slysatryggja sig sérstaklega.
Hvernig slysatryggi ég mig í keppni?
Til að keppandi sé slysatryggður í keppni þarf að kaupa sérstaka slysatryggingu. Það gildir sama hvort um er að ræða keppni á óskráðum eða skráðum ökutækjum, öðrum en einkabílum. Við bjóðum upp á Almenna slysatryggingu sem sniðin er að þörfum hvers keppanda, aðstæðum hans, hversu mörgum keppnum hann ætlar sér að taka þátt í o.s.frv.
Við hvetjum þá sem hyggja á keppni að hafa samband í tíma þar sem fylla þarf út beiðni fyrir Almenna slysatryggingu.
Þeir sem hafa keypt keppnisviðauka á skráðar bifreiðar þurfa ekki sérstaka slysatryggingu.