Við endurnýjun trygginga eru tryggingarfjárhæðir, eigin áhættur og iðgjöld endurskoðuð með tilliti til vísitölubreytinga. Það eru mismunandi vísitölur notaðar eftir tryggingartegundum en valin er sú vísitala sem endurspeglar best verðbreytingar á því sem verið er að greiða úr hverri tryggingu. Í sumum tilfellum er það ákveðið í lögum hvaða vísitölu skal nota eins og í lögboðnum starfsábyrgðartryggingum eða í kjarasamningum eins og í slysatyggingu launþega.
Hér að neðan má sjá hvaða vísitölur hafa áhrif á hverja tryggingategund:
- Fjölskylduvernd – Vísitala neysluverðs án húsnæðis.
- Tryggingar á fasteignum – Byggingarvísitala.
- Ökutækjatryggingar – Vísitala kaskótrygginga, vísitala ábyrgðartrygginga ökutækja og vísitala slysatrygginga ökumanns og eiganda.
- Eignatrygging lausafjár – Vísitala neysluverðs án húsnæðis.
- Ábyrgðartrygging atvinnurekstrar – Vísitala neysluverðs án húsnæðis.
- Líf-, sjúkdóma- og barnatrygging – Vísitala neysluverðs.
- Sjúkra- og slysatrygging – Vísitala neysluverðs án húsnæðis.
- Lögboðnar starfsábyrgðartryggingar – Vísitala neysluverðs og byggingarvísitala.
- Slysatrygging launþega – Vísitala neysluverðs.
Vístala neysluverðs
Vísitalan mælir breytingar á verði almennrar neysluvöru og þjónustu sem heimili kaupa þ.m.t. húsnæðiskostnað. Hér eru til dæmis kaup á matvöru, fatnaði, rekstur á húsnæði (hvort sem það er eigið húsnæði eða leiga á húsnæði), kaup á heimilistækjum, rekstur einkabíls, fjarskipti, áskrift að fjölmiðlum og fleira. Í almennri umræðu þegar rætt er um neysluverðsvísitölu er átt við þessa vísitölu.
Vísitala neysluverðs án húsnæðis
Vísitalan mælir breytingar á verði almennrar neysluvöru og þjónustu sem heimili kaupa en þó ekki húsnæði. Hér er átt við kaup á matvöru, fatnaði, kaup á heimilistækjum, rekstur einkabíls, fjarskipti, áskrift að fjölmiðlum og fleira.
Byggingarvísitala
Vísitalan mælir breytingar á verðlagi við byggingu á húsnæði og viðhaldi þess. Hér eru mældar breytingar á kostnaði við hönnun, efni og vinnu innanhúss sem utanhúss.
Vísitala ábyrgðartryggingar (ökutækja)
Vísitalan mælir t.d. breytingar á verði ökutækja, varahluta, verkstæðisvinnu, leigu bílaleigubíla og breytingar á launum.
Vísitala slysatryggingar ökumanns og eiganda
Vísitalan mælir breytingar á launum og fylgir launavísitölu.
Vísitala húf- og framrúðu
Vísitalan mælir t.d. breytingar á verði ökutækja, varahluta og verkstæðisvinnu.