Hvernig geri ég heimilið öruggara?
Öll viljum við lágmarka líkur á að brotist sé inn hjá okkur. Flest innbrot eiga sér stað þegar enginn er heima eða þegar allir eru í fastasvefni. Einnig eru dæmi um að þjófar fari inn þegar einhver er heima yfir daginn og útidyr, svalir eða garðdyr standa opnar. Eins ef tekið er úr lás í anddyri hússins.
Þess vegna skiptir miklu máli að allir á heimilinu gæti þess að læsa hurðum og loka gluggum hvort sem farið er í vinnu, skóla eða burtu yfir lengri tíma. Ekki er ráðlegt að geyma lykla undir mottunni eða í blómapotti við anddyri þar sem það er frekar augljós staður til að leita á. Best er að geyma aukalykla hjá nágranna, vini eða ættingja. Einnig er skynsamlegt að skipta um skrá þegar flutt er í nýtt húsnæði.
Góð útilýsing hefur fælingarmátt og til er lýsing sem tengd er við hreyfiskynjara. Mælt er með að millidyr fjölbýlishúsa séu læstar og að gestir þurfi að hafa samband við þann sem þeir eiga erindi við.
Gott er að vera með öryggiskerfi
Öryggiskerfi sporna gegn innbrotum en öryggiskerfi eitt og sér kemur þó aldrei í veg fyrir innbrot. Í þeim felst þó mikill fælingarmáttur og þau virkja utanaðkomandi aðstoð. Gott er að setja límmiða sem fylgja öryggiskerfinu á áberandi staði. Einnig er mikilvægt að kenna börnum á heimilinu á þjófavarnakerfið og brýna fyrir þeim að nota það.
Ertu að fara í ferðalag?
Skynsamlegt er að láta heimilið líta eðlilega út utan frá þegar farið er burt yfir lengri tíma. Gott getur verið að fá góðan granna, fjölskyldu eða vin til að ganga um heimilið og lóðina á meðan þú ert í burtu. Einnig er skynsamlegt að gæta þess hvað sett er á samfélagsmiðla og tilkynna ekki um fjarveru frá heimili. Við mælum með að fara yfir gátlista fyrir fríið áður en lagt er í hann.
Hvað getur góður granni gert á meðan þú ert í burtu?
- Haft auga með grunsamlegum bíla- og mannaferðum
- Fylgst með að póstur safnist ekki upp í bréfalúgu/póstkassa
- Sett sorp í ruslatunnu nágrannans
- Lagt bifreið í heimreið
- Dregið gluggatjöld frá/fyrir af og til
- Kveikt og slökkt ljós
- Slegið blettinn að sumri til og/eða mokað snjó að vetri til
- Tilkynnt lögreglu um grunsamlegt athæfi
Hvað á að gera ef brotist er inn hjá mér?
Miklu máli skiptir að bregðast rétt við. Gættu þín á að innbrotsþjófurinn gæti enn verið á vettvangi og þú verður fyrst og fremst að huga að öryggi þínu. Sýndu því skynsemi og ekki fara inn í húsið ef þú telur að einhver sé inni í því. Hringdu strax á lögregluna í 112 og tilkynntu innbrotið. Ef þú kemur heim og sérð að brotist hefur verið inn hjá þér er mikilvægt að hreyfa ekki við neinu fyrr en lögreglan kemur. Ef ókunnugur bíll er fyrir utan þá getur verið gagnlegt að taka niður bílnúmerið, til dæmis með því að taka mynd af bílnum.
Hvað á að gera ef brotist er inn og ég er heima?
Eðlileg viðbrögð eru að vilja reka viðkomandi strax út. En mikilvægt er að sýna varkárni. Þú veist ekki í hvaða ástandi þjófurinn er eða hvað þeir eru margir. Hringdu í neyðarlínuna 112 og óskaðu eftir aðstoð til dæmis með því að segja að brotist hafi verið inn og að þjófarnir séu enn í húsinu.
Innbrot tilkynnt til Sjóvár
Einfalt og öruggt er að tilkynna tjón á vefnum okkar sjova.is. Hægt er að gera tjónstilkynningu rafrænt á sjova.is. og bæta þar við myndum af því sem stolið var, ef þær eru til. Þannig getur þú brugðist við hvenær sem tjónið verður og afgreiðsla málsins getur hafist hratt og örugglega. Einnig er hægt að hafa samband í þjónustusíma 440 2000 á opnunartíma eða mæta á skrifstofu Sjóvár, Kringlunni 5 eða í viðeigandi útibú. Ef um innbrot, þjófnað eða skemmdarverk er að ræða skal hafa strax samband við 112.