Spurt og svarað
Af hverju er Innsýn góð leið til að meta tjón?
Þessi lausn gerir okkur kleift að bregðast hraðar við en áður og skoða aðstæður fyrr. Tjónamatsmenn okkar geta með þessum hætti fengið nákvæmar upplýsingar um aðstæður á vettvangi tjóns, án þess að þurfa að koma á staðinn. Þetta hjálpar okkur að greina hvaða þjónustu viðskiptavinurinn hefur þörf fyrir í hverju tilviki. Um leið fækkar akstursferðum okkar og viðskiptavina, sem gerir lausnina afar umhverfisvæna.
Ég er alls ekki tæknivædd/ur, er Innsýn þá of flókin fyrir mig?
Alls ekki. Viðskiptavinir okkar sem hafa nýtt sér þessa leið hafa talað um það hversu einföld og þægileg hún er í notkun, ekki síst þeir sem töldu sig ekki hafa góða tækniþekkingu. Við hvetjum þig því endilega til að prófa, ef lausnin hentar ekki af einhverjum orsökum, þá finnum við réttu lausnina fyrir þig.
Hvað sér starfsmaðurinn sem ég veiti aðgang að myndavélinni minni í gegnum Innsýn?
Þegar þú samþykkir að notkunarskilmála fyrir Innsýn veitir þú tjónamatsmanni okkar aðgang að myndavélinni í símanum þínum. Hann sér aðeins það sem þú beinir myndavélinni að (sem þú sérð á skjánum), hvar þú ert staðsett/ur og stöðuna á hleðslunni á símanum en hefur ekki aðgang að neinum öðrum upplýsingum í símanum þínum.
Hvað verður um gögnin sem þið fáið í gegnum Innsýn?
Áður en þú tengist Innsýn færðu senda notkunarskilmála sem þú annað hvort samþykkir eða hafnar. Í skilmálunum er farið yfir það efni sem þú samþykkir vinnslu á með því að tengjast Innsýn, það er myndefni sem sést í gegnum myndavél, hljóðefni og upplýsingum um staðsetningu. Þar er viðskiptavinur minntur á að beina myndavélinni aðeins að þeim munum sem tengjast tjóna- eða ástandsskoðuninni.
Gögnin sem verða til eru eingöngu nýtt við úrvinnslu tjónsins og er öll notkun á þeim í samræmi við persónuverndarstefnu okkar.
Er hægt að meta öll tjón með Innsýn?
Fyrst um sinn munum við nota Innsýn við vettvangs- og munaskoðun í eignatjónum, t.d. þegar vatnsleki verður á heimilum. Notkunarmöguleikarnir eru þó miklir og munum við halda áfram að þróa þessa leið enn frekar til að geta veitt viðskiptavinum okkar stöðugt betri þjónustu.
Umsagnir viðskiptavina
„Þetta var bara ekkert mál … sparar helling að þurfa ekki að vera að keyra á milli staða.“
„Maður er alltaf óöruggur að gefa einhverjum aðgang að símanum, hann er svo persónulegt tæki, þannig að mér fannst það pínu óþægilegt svona, en að sama skapi líka kostur, að geta sýnt strax hvað var að gerast, í símtalinu.“
„Í staðinn fyrir að ég væri að senda einhverjar myndir sem ég hafði tekið sjálfur þá gat hann skoðað allt sem hann vildi sjá.“
„Þetta hentaði mér mjög vel og var vinnusparandi fyrir alla. Ég var heima þannig að það passaði fínt.“