Það er mikilvægt fyrir íbúa á þekktum jarðskjálftasvæðum að gera ráðstafanir sem geta dregið úr tjóni.
Þegar jarðskjálfti ríður yfir er best að taka sér stöðu úti í horni við burðarvegg eða krjúpa undir borð, skýla höfði og halda sér í. Finnið staði á heimilinu, í vinnunni eða í skólanum þar sem öruggt er að vera í jarðskjálfta. Mikilvægt er að fara yfir þessi atriði með öllum á heimilinu.
Náttúruhamfaratrygging Íslands (NTÍ) bætir tjón af völdum jarðskjálfta, það er ekki bætt hjá tryggingafélaginu. NTÍ miðar við brunatrygginguna á húseigninni, sem er skyldutrygging. Undir þeirri tryggingu eru húseignir tryggðar sem verða fyrir beinu tjóni vegna eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða. Til að innbúsmunir séu bættir þá þarf tjónþoli að vera með innbústryggingu, heimilistryggingu eða fjölskylduvernd hjá sínu tryggingafélagi.
Ítarlegri upplýsingar og tilkynningar um tjón má finna á heimasíðu NTÍ.