Vatn
Flest tjón í sumarhúsum eru vegna vatnsleka. Vatnstjón geta verið mjög kostnaðarsöm og því skiptir máli að gera fyrirbyggjandi ráðstafanir. Ráðlegt er að koma fyrir vatnsskynjara við uppþvotta- og þvottavélar.
Heitt vatn
Heitavatnsleki er iðulega mun skaðlegri en leki á köldu vatni, virkasta forvörnin gegn því er að loka ávallt fyrir neysluvatnsaðstreymi þegar húsin eru yfirgefin. Það kemur í veg fyrir að vatn flæði óhindrað í mannlausu húsi, jafnvel þótt bilun eða frost nái að valda skemmdum á lagnakerfinu. Öflugasta vörnin gegn vatnsleka í miðstöðvarkerfi sumarhússins er að notað sé lokað hringrásarkerfi með millihitara og að frostlögur sé á kerfinu.
Er bústaðurinn lítið notaður á veturna
Ef bústaðurinn er ekki í mikilli notkun yfir vetrartímann þá skiptir máli að skoða aðstæður í bústaðnum eftir mikla frostakafla, þegar vatn nær að frjósa í lögnum, verða svokallaðar frostsprungur á þeim vegna þennslu. Með góðu eftirliti má koma í veg fyrir stórt vatnstjón þótt lagnir hafi sprungið, því vatnið fer ekki að flæða fyrr en frostakafla er lokið og hitastig fer aftur yfir frostmark. Hið sama á við ef rafmagn eða hitaveita hefur farið af, við slíkar aðstæður getur auðveldlega frosið í lögnum.
Áður en haldið er heim á leið
Þegar sumarhús er yfirgefið þá þarf að loka fyrir inntak heita og kalda neysluvatnsins og tappa af vatnslögnum og salerni, ef ekki er sérstakt tæmingarlok. Gott er þó að hafa hita á ofnakerfi sumarhússins sé það til staðar. Það getur komið í veg fyrir að lagnir frostspringi með tilheyrandi tjóni og óþægindum.
Hvað getur bent til vatnsleka?
- Málning sem er á veggjum bólgnar eða aðrar útlitsbreytingar verða á veggfletinum
- Gólf er bólgið/sigið eða sýnilegar skemmdir komnar fram getur verið merki um að vatn leki frá lögnum
- Fúkkalykt eða önnur ólykt getur gefið til kynna vatnsleka eða rakamyndun
- Ofnar virka ekki eins og þeir gera venjulega eða ryð og kalkútfellingar á samskeytum
Það er þrennt sem skiptir máli
- Kynntu þér vel hvar á að skrúfa fyrir heitt og kalt vatn
- Merktu kranana með Heitt vatn og Kalt vatn merkjum
- Færðu dót frá til að tryggja aðgengi
Svo er bara að sýna fjölskyldumeðlimum hversu vel kranarnir eru merktir og hvar þeir eru þannig að allir viti hvar á að skrúfa fyrir.
Fyrstu viðbrögð við vatnstjóni
Þú getur náð í okkur allan sólarhringinn ef þú lendir í tjóni. Stundum þarf að bregðast hratt við um miðja nótt og þá gerum við það. Utan opnunartíma nærðu í okkur í síma 440-2424.