Ársskýrsla

Sjóvá 2015

Helstu lykiltölur

 

Iðgjöld ársins

14076m.kr.

3,5%

Tjón ársins

11239m.kr.

20,1%

Afkoma af vátryggingastarfsemi

191m.kr.

85,8%

Eiginfjárhlutfall

39,3%

13,1%

Ávöxtun eigin fjár

3,9%

33,9%

SCR gjaldþol

1,86

1,1%

 

Samsett hlutfall

Samsett hlutfall samstæðunnar var 103,8% samanborið við 94,8% árið 2014. Samanburðarfjárhæðum vegna 2014 hefur verið breytt frá áður birtum ársreikningi 2014. Sjá skýringu 3 í ársreikningi.

 

  • Tjónahlutfall
  • Endurtryggingahlutfall
  • Kostnaðarhlutfall

 

 

Þróun eigin fjár og ráðstöfun þess

Eigið fé er samtala gjaldþols og óefnislegra eigna.

 

 

  • Gjaldþol
  • Óefnislegar eignir
  • Arður
  • Endurkaup

 

 

Erna Gísladóttir stjórnarformaður

Á heildina litið var árið 2015 gott í rekstri Sjóvár. Árið var tjónaþungt sem skilar sér í neikvæðri afkomu skaðatrygginga en afkoma af líftryggingarekstri og fjárfestingum var vel yfir væntingum.

 

 

Aðalfundur 2015 samþykkti heimild til handa stjórn til að kaupa eigin hluti í félaginu með framkvæmd endurkaupaáætlunar. Stjórnin samþykkti í framhaldinu endurkaupaáætlun sem gerði ráð fyrir kaupum að hámarki 5,02% af útgefnu hlutafé félagsins. Um áramót var búið að kaupa 1,84% hluta í Sjóvá. Markmið með endurkaupaáætlun er að lækka hlutafé félagsins og verður tillaga gerð um lækkun sem nemur keyptum eigin bréfum um áramót á aðalfundi félagsins. Endurkaupin gengu hægar en reiknað var með í fyrstu sem helgast fyrst og fremst af því að velta með bréf félagsins hefur verið lítil og má því gera ráð fyrir að áhugi núverandi hluthafa til að selja sé takmarkaður. Til að hraða enn frekar endurkaupum vill stjórn afla sér heimilda til að taka þátt í að kaupa hlut ríkisins í Sjóvá með það í hyggju að færa það hlutafé niður.

Aðalfundur samþykkti arðgreiðslu til hluthafa sem nam fjórum milljörðum króna fyrir árið 2014. Arðurinn var greiddur út í apríl 2015 og var það fyrsta arðgreiðsla félagsins. Stefna stjórnar er að félagið sé arðgreiðslufélag og mun stjórnin leggja til á aðalfundi að greiða út arð sem nemur um 657 milljónum króna fyrir árið 2015.

Nýtt regluverk á vátryggingamarkaði, Solvency II, tekur gildi á árinu 2016. Í reglunum eru gerðar auknar kröfur um sterkan fjárhag og virka áhættustýringu með það að markmiði að auka vernd vátryggingataka. Eigið áhættu- og gjaldþolsmat félagsins, ORSA (e. Own Risk and Solvency Assessment), hefur fest sig í sessi sem sameiginlegt áhættugreiningartæki stjórnar og stjórnenda. Með matinu er litið til framtíðar og reynt að spá fyrir um líklega þróun gjaldþols og áhrif hugsanlegra áfalla þar á. ORSA ferlið er afar gagnlegt og skilar dýpri skilningi allra sem koma að rekstri og eftirliti á næmni félagsins fyrir áföllum. Áhættusnið Sjóvár tekur mið af þeirri stefnu að halda sterkri fjárhagsstöðu og stöðugleika í rekstrinum.

Í uppgjöri ársins 2015 voru óefnislegar eignir í viðskiptasamböndum og hugbúnaði sem keyptar voru við stofnun félagsins afskrifaðar að fullu. Byggðist þessi aðgerð meðal annars á mati stjórnenda vegna breytinga á lögum um vátryggingarsamninga sem gera viðskiptavinum hægar um vik að skipta um vátryggingafélag en áður. Afskriftin hefur engin áhrif á lykilstærðir, rekstraráætlanir, styrkleikamælikvarða og ákvarðanir um arðgreiðslur. Leiða má líkum að því að allur samanburður á vátryggingamarkaði verði í kjölfarið skýrari þar sem ekki þarf lengur að leiðrétta fyrir óefnislegri eign Sjóvár, hvort heldur sem er í efnahagsreikningi eða í rekstrarreikningi.

Um mitt ár ákvað stjórnin að leggja grunn að samkeppnisréttaráætlun fyrir Sjóvá samstæðuna. Í því felst stefnuyfirlýsing samstæðunnar í samkeppnismálum og fræðsla um samkeppnisrétt sem ætlað er að tryggja að starfað sé í samræmi við samkeppnislög og góða viðskiptahætti. Framkvæmt var áhættumat vegna samkeppnisáhættu og samkeppnisréttaráætlun virkjuð meðal annars með fræðslu til stjórnar, stjórnenda og starfsfólks.

Það er fagnaðarefni að tekist hafi að skapa ró á vinnumarkaði í lok liðins árs og svo aftur nú með SALEK samkomulaginu svokallaða. Það er hins vegar ljóst að niðurstaða þeirra samninga kallar á breyttar áætlanir bæði í rekstrar- og tjónakostnaði þar sem hækkunin er meiri en ráð var fyrir gert. Enn og aftur dettum við Íslendingar í það far að hækka almenn laun langt umfram það sem gerist og gengur í nágrannaríkjum okkar og aukum þar með hættu á vaxandi verðbólgu, hækkandi vaxtastigi og fallandi gengi sem aftur leiðir til almennrar kjaraskerðingar. Vonandi tekst öllum aðilum vinnumarkaðarins að koma í veg fyrir þessa þróun og skapa meiri stöðugleika með lengri tíma öryggi fyrir alla.

Á liðnu ári varð sú breyting að Anna Guðmundsdóttir vék úr endurskoðunarnefnd og sem varamaður í stjórn. Kristín Egilsdóttir tók við í endurskoðunarnefnd. Mig langar að þakka Önnu gott starf fyrir Sjóvá og bjóða Kristínu velkomna til starfa.

Ég vil fyrir hönd stjórnarinnar þakka stjórnendum og starfsfólki fyrir gott starf á árinu 2015. Við hlökkum til áframhaldandi ánægjulegs samstarfs með starfsfólki og viðskiptavinum Sjóvár.

 

Hermann Björnsson forstjóri

Staða Sjóvár er sterk þrátt fyrir vaxandi tjónatíðni og rysjótt veður á árinu. Afkoman telst góð og helgast það af mjög góðum árangri af fjárfestingarstarfsemi. Afkoma skaðatrygginga olli vonbrigðum en einstakar vátryggingagreinar skiluðu mismunandi afkomu.

 

 

Sé litið til ökutækjatrygginga þá hefur afkoma þeirra farið versnandi. Landsmenn aka meira með lækkandi bensínverði og auknum kaupmætti sem leiðir síðan til aukinnar tjónatíðni. Bættur efnahagur hefur líka hraðað endurnýjun bílaflotans sem var tímabært þar sem hann var að verða með þeim elstu í Evrópu. Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar jókst umferðin um 6,2% prósent árið 2015 en það er næstmesta aukning sem mælst hefur síðan 2005. Því miður hefur þessi aukning leitt til þess að fjölda alvarlega slasaðra og banaslysum í umferðinni hefur fjölgað. Þetta er þróun sem verður að sporna við og þurfum við að gera allt sem í okkar valdi stendur til að hindra að hún verði áfram á sömu leið.

Aukin bílaumferð skýrist einnig af mikilli fjölgun ferðamanna. Það er jákvæð þróun sem rennt hefur stoðum undir bætt efnahagsástand. En við þurfum líka að gæta að því að ferðaþjónustan gangi ekki á auðlindina með ofnýtingu og að vandlega sé gætt að öryggismálum og tryggingum. Huga þarf að nauðsynlegri endurnýjun innviða og gæðum þeirrar þjónustu sem verið er að selja. Þar er aðkallandi að bæta vegakerfið, merkingar og fræðslu.

Óveður liðins árs eru með þeim verstu sem gengið hafa yfir landið frá árinu 1991. Þrátt fyrir það ollu þau minni usla en búast mátti við. Það má þakka hversu vel hús eru byggð, og einnig vel heppnuðum forvarnaskilaboðum sem landsmenn taka mark á og bregðast vel við. Ekki má gleyma þætti Slysavarnafélagsins Landsbjargar og allra sjálfboðaliðanna innan þeirra vébanda sem unnið hafa ómetanleg störf í þágu landsmanna. Við hjá Sjóvá erum afar stolt af því að vera aðalstyrktaraðili þessara mikilvægu samtaka sem við gætum alls ekki verið án.

Stjórnendur Sjóvár hafa gefið það út sem markmið að samsett hlutfall til lengri tíma sé um 95% sem þýðir að öllu jöfnu að bestu tímabilin skila tæplega 90% samsettu hlutfalli og verstu tímabilin rúmlega 100%. Líta verður til þeirra tilvika sem skapa versnandi afkomu. Það er ljóst að það er tjónahlutfallið sem nú er að valda hærra samsettu hlutfalli. Bæði er það sökum stærri einstaka tjóna en einnig vegna aukinnar tíðni eins og fram hefur komið.

Þegar á heildina er litið er staða Sjóvár sterk. Það er hlutverk félagsins að bæta tjón viðskiptavina og mæta þeim sveiflum sem óhjákvæmilega verða, hvort sem litið er til veðurfars eða stærri tjónsatburða. Af þeim sökum mun afkoma félagsins sveiflast ef horft er til styttri tímabila en er jafnari yfir lengri tímabil.

Á árinu 2015 vann starfsfólk mikið verk í að einfalda verkferla, skilmála og framsetningu þeirra með það að leiðarljósi að koma enn betur til móts við viðskiptavini. Það er okkur mikið metnaðarmál að viðskiptavinir hafi greiðan aðgang að sínum tryggingum, og geti með einföldum hætti kynnt sér hvað þeir greiða fyrir þær og hvaða verndar þeir njóta. Við vitum að tryggingaverndin er öllum mikilvæg þegar á reynir og það er okkur kappsmál að viðskiptavinir þekki verndina og hafi fjölbreytta valkosti í þjónustu. Ég vil nota tækifærið og þakka viðskiptavinum okkar fyrir það traust sem þeir sýndu Sjóvá á liðnu ári. Við munum áfram leggja okkur fram um að viðhalda og styrkja þau viðskipti til framtíðar.

Ég vil þakka starfsfólki þeirra góða framlag og jákvæða viðhorf í garð félagsins. Ánægja starfsmanna er mæld árlega og það eru mikil verðmæti að státa að jafn miklum mannauði og við gerum hjá Sjóvá. Stjórnarmönnum þakka ég árangursríkt og gott samstarf.

 

Slysavarnafélagið Landsbjörg

 

 

Í björgunarsveitunum sameina 18.000 félagsmenn krafta sína til að koma í veg fyrir slys og hjálpa fólki við erfiðar aðstæður. Þess vegna er Sjóvá aðalstyrktaraðili Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Sjóvá hefur verið bakhjarl Slysavarnafélagsins Landsbjargar frá stofnun samtakanna árið 1999 og vinnur náið með samtökunum að margskonar forvarna- og öryggisverkefnum. Sjóvá tryggir björgunarsveitarfólk Slysavarnafélagsins Landsbjargar ásamt því að tryggja eignir og búnað sveitanna um allt land.

Við erum stolt af að geta stutt við bakið á þessari göfugu starfsemi.